Stöðumat sýnir að stjórnsýlsubreytinga var þörf

Umtalsverðar stjórnsýslubreytingar voru innleiddar á Akureyri fyrir rúmu ári.
Umtalsverðar stjórnsýslubreytingar voru innleiddar á Akureyri fyrir rúmu ári.

Stöðumat vegna stjórnsýslubreytinganna á Akureyri sem tóku gildi 1. janúar 2017 voru kynntar í bæjarráði í síðustu viku. Markmiðið með stöðumatinu er að draga fram hvað gengið hefur vel og hvar þarf að gera betur svo að tilgangur breytinganna nái fram að ganga en helsta markmiðið var að einfalda stjórnsýsluna í þeim tilgangi að efla þjónustu við bæjarbúa.

Akureyrarbær fór í umtalsverðar breytingar á stjórnsýsluháttum bæjarins fyrir rúmu ári og sneru breytingar m.a. að því að sameina svið og ráða í fjórar nýjar stöður sviðsstjóra. Breytingarnar voru umdeildar og mættu töluverðri óánægju. Helstu niðurstöðum matsins eru þær að starfsfólk hafi almennt verið þeirrar skoðunar að breytinga hafi verið þörf og að langflestir starfsmenn séu jákvæðir, trúir vinnustaðnum og hafi verið tilbúnir í verkefnið, er fram kemur á vef Akureyrarbæjar.

Bæjarstjórnin hafi einnig staðið heilshugað að baki verkefninu þó að sjónarmið hafi verið mismunandi. Mikið samráð var viðhaft áður er hafist var handa við breytingarnar. Þrátt fyrir það komu fram vísbendingar um að gera hefði mátt betur varðandi samráð og upplýsingagjöf um að koma markmiðum breytinganna skýrara á framfæri. Þá kemur fram að breytingarnar hafi sumsstaðar haft þau áhrif að starfsfólk upplifi aukið álag og borið hefur á áfalli nokkurra starfsmanna. Þá gefa niðurstöðurnar til kynna að frammistaða hafi að einhverju leyti minnkað.

„En mikilvægt er að hafa í huga að aðeins er liðið um ár frá því að innleiðingin hófst og er viðbúið að á næstu misserum aukist sátt og að samþætting verkefna muni ganga betur,“ segir í niðurstöðum, en framundan er að vinna markvisst með niðurstöður stöðumatsins. Upplýsingum um stöðu innleiðingar var safnað með viðtölum við fulltrúa í innleiðingarhópi, stjórnendur og með spurningakönnun fyrir hóp starfsmanna og kjörinna fulltrúa.

Nýjast