Stjórnandi Super Break sáttur þrátt fyrir hnökra í byrjun

Mikil ánægja er á meðal stjórnenda Super Break með beina flugið til Akureyrar.
Mikil ánægja er á meðal stjórnenda Super Break með beina flugið til Akureyrar.

Þrátt fyrir töluverða hnökra á beinu flugi bresku ferðaskrifstofunnar Super Break til Akureyrar í upphafi árs er stjórnandi Super Break, Chris Hagan, nokkuð sáttur við hvernig til hefur tekist. Beint áætlunarflug frá Bretlandi til Akureyrar hófst í janúar en mörg flugin hafa hins vegar endað í Keflavík vegna veðurs. Síðasta flugið þennan veturinn er væntanlegt til Akureyrar í dag.

Vél frá Bretlandi lenti á Akureyrarflugvelli að morgni mánudagsins síðasta en fram að því höfðu þrjú flug í röð farið til Keflavíkur og einnig nokkur í janúar. Flugfélagið, Enter Air, gefur upp veðuraðstæður en veðurmat flugmanna hefur ekki alltaf verið í samræmi við mat þeirra sem til þekkja hér á svæðinu.

„Þetta hefur verið meiri áskorun en við bjuggumst við í fyrstu. Við verðum þó að taka með í reikninginn þau veðurskilyrði sem gjarnan skapast hér í janúar og febrúar,“ segir Chris Hagan. „Okkur hefur verið sagt af fólki sem býr hér á Akureyri að við höfum verið frekar óheppin með veður. En þrátt fyrir þessa hnökra eru farþegar almennt sáttir sem hafa þurft að lenda í Keflavík og keyra á milli.“

Chris segir plön Super Break um áframhaldandi flug næsta vetur ekkert hafa breyst. „Við horfum á það jákvæða, hvað farþegar eru ánægðir með ferðirnar til Akureyrar og þau efnahagslegu áhrif sem þetta skilar sér fyrir svæðið. Ég þekki það af eigin reynslu að svona hlutir geta haft verulega góð áhrif á viðskiptalífið og ég vonast til þess að hægt verði að byggja ofan á þetta,“ segir Chris Hagan.

Óhætt er að segja að góð nýting hafi verið á fluginu en yfir 95% allra sæta voru seld. Einnig hefur salan á fluginu næsta vetur sem hefst 10. desember farið vel af stað.

Nýjast