Eins og fram hefur komið hefur Akureyrarbær ákveðið að 5 ára leikskóladeild verði starfrækt í húsnæði Glerárskóla næsta skólaár til að bregðast við skorti á leikskólaplássum. Vikudagur ræddi við Soffíu Vagnsdóttur fræðslustjóra á Akureyri og spurði fyrst um hvort stefnubreytingu væri að ræða í skólamálum.
„Sannarlega er fólgin ákveðin nýsköpun í því að útvíkka starfsemi leikskóladeilda innan veggja grunnskólans. Þannig að já, þetta er stefnubreyting að bregðast við með þessum hætti, að blanda skólastigunum saman undir sama þaki Það er líka mjög gleðilegt að upplifa jákvæðni grunnskólanna fyrir verkefninu og einnig einlægan vilja leikskólanna til að taka þátt í þessari nýju lausn,“ segir Soffía.
Leikskólum fer fækkandi á Akureyri á sama tíma og mikil þörf er á leikskólaplássum. Sunnuból var lokað í fyrra og í haust mun Hlíðarból loka. Ástæðan er sparnaður hjá Akureyrarbæ.
-Hefði verið heppilegra að fresta því að loka tveimur leikskólum í ljósi ástandsins? Voru það mistök að loka þeim?
„Nei, það hefði ekki verið valkostur á þeim tíma sem þær ákvarðanir voru teknar þar sem nemendaspáin gaf þá til kynna að plássin nægðu og sú ákvörðun að loka Sunnubóli og síðar Hlíðabóli var tekin að vel ígrunduðu máli og miðað við áætlaða þörf fyrir leikskólapláss,“ segir Soffía.
Nánar er fjallað um málið og rætt við Soffíu í prentútgáfu Vikudags