Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt fjóra starfsmenn hvalaskoðunarfyrirtækisins Gentle Giants á Húsavík til greiðslu sekta. Bátar á vegum fyrirtækisins voru með fleiri farþega um borð en leyft er samkvæmt reglugerð. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Það var framkvæmdastjóri fyrirtækisins ásamt þremur stjórnendum bátanna sem dæmdir voru til greiðslu sekta. Farþegarnir voru frá því að vera 13 og upp í 18 í þeim tilvikum sem ákært var fyrir en aðeins er leyfilegt að hafa 12 farþega um borð. Bátarnir sem um ræðir eru svokallaðir RIB-bátar, eða harðbotna slöngubátar.