Starfsfólki talin trú um að það sé betra að vera á atvinnuleysisbótum

Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar, stéttarfélags.
Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar, stéttarfélags.

Á heimasíðu Framsýnar, stéttarfélags er áfram fjallað um það að sífellt fleiri fiskvinnslur taki starfsfólk af launaskrá vegna hráefnisskorts út af yfirstandandi sjómannaverkfalli. Stéttarfélagið segir frá því að fyrirspurnum frá fiskvinnslufólki rigni inn varðandi réttindi þeirra og kjör í sjómannaverkfallinu.

Fyrirspurnirnar koma einkum frá  starfsfólki sem hefur verið sent heim kauplaust til að skrá sig á atvinnuleysisbætur í stað þess að fyrirtækin haldi því á kauptryggingu. „Því miður virðist sem þeim fullyrðingum sé haldið að fiskvinnslufólki að það sé hagstæðara að vera á atvinnuleysisbótum en á kauptryggingu hjá fiskvinnslufyrirtækjum. Framsýn er kunnugt um nokkur fyrirtæki sem hafa haldið þessu fram og í einhverjum tilfellum haft stéttarfélög starfsmanna með í ráðum ef marka má skýringar sem fyrirtækin hafa gefið,“ segir á heimasíðu Framsýnar.

Í kvöldfréttum RÚV í gærkvöld var rætt við Drífu Snædal, framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins. Þar gagnrýnir hún harðlega aðferðir sjávarútvegsfyrirtækja og telur ástæðu til að þrýsta á um lagabreytingu. Mörg hundruð manns hafa verið teknir af launaskrá víða um land og hvattir til að skrá sig á atvinnuleysisbætur.

Drífa segir það koma sér í opna skjöldu að fyrirtækin velji að fara þessa leið í stað þess að halda ráðningasambandi við starfsfólk sitt með kauptryggingarleiðinni og fá þá mótgreiðslu úr atvinnuleysistryggingasjóði.  „Það þýðir að fólk fær í einhverjum tilfellum tekjutengdar atvinnuleysisbætur og í öðrum tilfellum strípaðar atvinnuleysisbætur. En það þýðir að fólk er ekki að safna upp réttindum sem launafólk á meðan það er á atvinnuleysisbótum. Það er að ganga á rétt sinn til atvinnuleysisbóta sem það gæti þurft að nota síðar. Svo þetta er skerðing fyrir nánast undantekningalaust alla,“ sagði Drífa í samtali við fréttastofu RÚV.

Í ítarlegri samantekt á heimasíðu Framsýnar eru fullyrðingar sjávarútvegsfyrirtækjanna um að hagstæðara sé fyrir starfsfólk að fara beint á atvinuleysisbætur í stað þess að vera á kauptryggingu hraktar. Skoða má samntektina með því að smella hér.

Nýjast