Stöðin er staðsett á Þveráreyrum í Eyjafjarðarsveit og er hún í meirihlutaeigu sveitarfélaganna í Eyjafirði, auk matvælafyrirtækja og fleiri aðila. Tilkoma stöðvarinnar er lykilskref í því að sorpurðun verði hætt á Glerárdal og þannig er með stöðinni stigið stórt og langþráð skref í umhverfismálum svæðisins. Stöðin er sú stærsta sinnar tegunar í Evrópu og getur annað um 10-13 þúsund tonn á ásgrundvelli. Stærð stöðvarinnar markast af því að geta afkastað háönn í úrgangi á svæðinu, á haustin þegar sláturtíð gengur yfir. Stöðin er þannig uppbyggð að mjög einfalt er að bæta við tromlum og auka afköst hennar.
Framkvæmdir við stöðina hófust í ágúst á síðasta ári og í júní sl. hófst reynslukeyrsla stöðvarinnar, Strax í næsta mánuði mun svo verða full nýting á stöðinni í sláturtíðinni. Út úr ferlinu í jarðgerðarstöðinni kemur molta, sem þarf að verkast í um þrjá mánuði í mönum við stöðina og er hún þá tilbúin í frekari vinnslu. Molta er verðmætt áburðarefni og nú þegar er jarðgerðin orðin að veruleika mun fyrirtækið einbeita sér að þróun á framhaldsvinnslu moltunar. Í þeim þætti eru taldir ýmis möguleikar sem skilað gætu fyrirtækinu frekari tekjum og skapað ný störf en við moltugerðina eru um tvö störf á ársgrundvelli.