10. nóvember, 2009 - 21:50
SR hafði betur gegn SA er liðin mættust í kvöld í Skautahöll Akureyrar á Íslandsmótinu í íshokkí karla.
Lokatölur leiksins urðu 5:3 sigur SR. Aðeins eitt mark var skorað í fyrsta leikhluta og það gerði Orri Blöndal fyrir heimamenn. Daniel Kolar kom SR í
2:1 í öðrum leikhluta með tveimur mörkum í upphafi leikhlutans. Orri Blöndal náði hinsvegar að jafna leikinn fyrir heimamenn áður en
flautað var til leikhlés og staðan því jöfn, 2:2, fyrir þriðja og síðasta leikhlutann.
Steinar Páll Veigarsson kom SR yfir, 3:2, á 3. mínútu þriðja leikhluta en Rúnar Freyr Rúnarsson jafnaði fyrir SA þremur
mínútum síðar og staðan 3:3. SR reyndist hins vegar sterkari á lokasprettinum og Daniel Kolar skoraði sitt þriðja mark í leiknum
þegar hann kom SR yfir 4:3 og Arnþór Bjarnason gulltryggði 5:3 sigur SR í leiknum með marki á lokamínútu leiksins.
SR trónir á toppi deildarinnar með 12 stig en SA hefur 9 stig í öðru sæti.