SR skellti Víkingum fyrir norðan

SR lagði SA Víkinga að velli í kvöld, 4-1, er liðin áttust við í Skautahöllinni á Akureyri í afar þýðingarmiklum leik fyrir bæði lið á Íslandsmóti karla í íshokkí. SR fer með sigrinum upp í 26 stig í öðru sæti deildarinnar og er í lykilstöðu um að komast í úrslitakeppnina í vor. SA Víkingar hafa 23 stig í þriðja sæti, en bæði liðin eru í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni við Björninn sem er á toppi deildarinnar með 29 stig. Björninn hefur leikið fjórtán leiki, SA Víkingar tólf leiki en SR ellefu leiki. Tvö lið fara áfram í úrslitakeppnina en hvert lið leikur sextán leiki í deildarkeppninni. SR er því komið með annan fótinn í úrslitin. Liðið spilar bæði við Björninn og SA Víkinga í næstu viku en þeir leikir geta ráðið miklu um framhaldið.

Arnþór Bjarnason kom SR yfir í fyrsta leikhluta í kvöld fyrir norðan. Hann var svo aftur á ferðinni snemma í öðrum leikhluta og kom gestunum í 2-0. Björn Róbert Sigurðarson kom SR í 3-0 áður en Rúnar Freyr Rúnarsson minnkaði muninn fyrir SA seint í öðrum leikhluta. Pétur Macck gullryggði sigur SR-inga með marki þremur mínútum fyrir leikslok og gestirnir fögnuðu mikilvægum sigri í leikslok fyrir norðan.

Nýjast