Geir Kristinn Aðalsteinsson forseti bæjarstjórnar segist fylgjandi því að Sjallanum á Akureyri verði breytt í hótel, eins og hugmyndir eru um. Hann segir að sú skoðun sé almennt ríkjandi innan L-listans. Eins og fram hefur komið, hafa fjárfestar í Reykjavík gert bindandi kauptilboð í Sjallann og hafa þeir jafnframt sent inn fyrirspurn til bæjarins um hvort leyfi fáist til að breyta húsnæðinu í hótel. Málið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar í síðustu viku og í bókun frá fundi nefndarinnar kemur fram að samkvæmt aðalskipulagi sé lóð Sjallans á skilgreindu miðsvæði, þar sem gert er ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi, s.s. veitinga- og gistihúsum. Skipulagsnefnd telur því að umbeðin breyting á notkun hússins falli undir ákvæði og skilmála gildandi aðalskipulags og deiliskipulags svæðisins.
Geir Kristinn segir að rekstraraðilar Sjallans hafi bent bæjaryfirvöldum á að það sé orðið mjög erfitt að reka svona stað. Menningin hefur breyst og ég skil sjónarmið þeirra vel. Sjallinn er barn síns tíma og þótt margir sjái eftir staðnum sem slíkum, þá þurfa svona staðir að reka sig. Fyrirhuguð breyting verður vonandi til þess að draga hingað fleiri ferðamenn. Húsið sjálft og nánasta umhverfi verður þá vonandi gert upp, þannig að þetta ætti að verða upplyfting fyrir miðbæinn. Ég er því mjög spenntur fyrir þessari hugmynd.
Sjallinn er um 2000 fermetrar að stærð en hugmyndin er að bæta einni hæð ofna á húsið. Gangi fyrirliggjandi hugmyndir eftir, er stefnt að því opna hótel í húsnæðinu fyrir sumarið 2013.