Spennan í algleymingi í N1-deild karla

Spennan er í agleymingi í N1-deild karla í handknattleik en þegar tvær umferðir eru eftir eiga fimm lið möguleika á að fylgja Haukum í fjögurra liða úrslit um Íslandsmeistaratitilinn. Næstsíðasta umferð deildarinnar fer fram í kvöld með heilli umferð. Stórleikir kvöldsins eru viðureignir  FH og HK í Kaplakrika og Fram og Akureyri í Framhúsinu, en einnig mætast Valur og Grótta að Hlíðarenda og Haukar taka á móti Aftureldingu.

Haukar hafa tryggt sig áfram en liðið er í efsta sæti deildarinnar með 27 stig, en FH, Akureyri, HK, Fram og Valur eiga öll möguleika á að fylgja Haukum í úrslitakeppnina. FH hefur 25 stig í öðru sæti, Akureyri 24 stig í þriðja sæti, HK og Fram 23 stig í fjórða til fimmta sæti og Valur 20 stig í því sjötta, en allt þarf að ganga upp hjá Val í síðustu tveimur umferðunum svo liðið hafni á meðal fjögurra efstu liða.

Það má búast við fullu húsi í Kaplakrika í Hafnarfirði í kvöld. Frítt verður á leikinn og er gríðarlega mikið undir fyrir bæði lið en FH getur tryggt sér sæti í úrslitakeppninni með sigri í kvöld. Tapi HK í kvöld getur liðið fallið niður í fimmta sætið fyrir lokaumferðina og því mikilvæg stig í boði fyrir bæði lið í kvöld.

Líkt og FH geta Akureyringar tryggt sig áfram í úrslitakeppnina með að vinna Fram í kvöld. Fram getur hins vegar komist upp fyrir Akureyringa með sigri og þannig komið sér í betri stöðu fyrir lokaumferðina.

Staða Vals er þannig að þeir verða að vinna báða leikina sem eftir eru og treysta á hagstæð úrslit úr öðrum leikjum til þess að komast áfram. Ekkert annað en sigur kemur því til greina fyrir Val í kvöld en Grótta er þegar fallið niður í 1. deild.

Haukar hafa þegar tryggt sig áfram og Afturelding mun enda í sjöunda sæti deildarinnar, hvernig sem síðustu tvær umferðirnar fara.

N1-deild karla |Handknattleikur
Kl. 19:30 FH-HK | Kaplakriki
Kl. 19:30 Fram-Akureyri | Framhús
Kl. 19:30 Valur-Grótta | Vodafonehöllin
Kl. 19:30 Haukar-Afturelding | Schenkerhöllin

Nýjast