Sparnaður Akureyrarbæjar

Þórður Ívarsson skrifar

Frá 1. janúar 2009 hefur starfsfólk á bæjarskrifstofum Akureyrarbæjar skipulega skorið niður þjónustu skóla og leikskóla. Þetta hefur komið illa við einstaklinga og fjölskyldur sem nýttu tíma fyrir kl. 07:45 og eftir kl. 16:15. Þar sem margir foreldrar eru í vinnu frá 08:00 til 17:00 þá er búið að klippa aftan af vinnudeginum og þarf að sækja barn og koma því í gæslu annarstaðar eða að fá skerðingu á vinnutíma. Einu varnir bæjarstarfsmanna voru að þetta væri fjölskylduvænt og börnin fengju að vera lengur með foreldrum á hverjum degi. Nú er svo komið að einhver börnin eru jafnvel ekki með annað foreldrið á heimilinu því það er farið til annars sveitarfélags eða Noregs í vinnu. Nýjasta útspil bæjarinns er að breyta morgunverðarformi leikskólanna, sem enn ruglar í annars góðum morgnum. Ekki er tekið tillit til nokkurs hluta barnanna sem jafnvel fengju ekki morgunmat yfir höfuð áður en þau koma í leikskólann.

Í ljósi sífeldrar þarfar á hagræðingu og skorts á fjölskyldusamskiptum starfsmanna er nú svo komið að við foreldrar erum orðin þreytt á þessum einhliða breytingum svo við ætlum að endurskipuleggja ráðingarmál starfsmanna á skrifstofu Akureyrarbæjar og seilast í vasa þeirra og einhliða segja þeim upp áttundu vinnustundinni og allri yfirvinnu. Þetta ætti léttilega að spara á þriðju milljón á mánuði, þar sem meðallækkun launa ætti ekki að vera nema 25.000.- á mánuði per starfmann (70-80). Starfmennirnir ættu að vera yfir sig hrifnir af því að vera meira með fjölskyldum sínum. Auk þessarar lækkunar launa verður farið að rukka fyrir kaffið ef kaffibollarnir eru orðnir fleiri en tveir á dag. Til að einfalda kerfið þá verða allir starfmenn rukkaðir um þriðja bollann ef einn starfsmaður fær sér auka kaffi. Milli klukkan 12:30 og 13:00 skulu allir starfsmenn þrífa bæjarskrifstofurnar, og sett verður upp vinnuplan svo jöfnuður náist í vinnuframlag starfsmanna á sameiginleg rými, fengnir verða starfsmenn úr leik- og grunnskólum bæjarinns til að hafa verkstjórn yfir þrifunum. Orkusparnaður um 4-8% ætti að nást með þessu líka þar sem minni lýsing og tölvunotkun fylgir í kjölfarið. Vinnuframlag starfsmanna skal samt vera það sama, þ.e.a.s. þeir þurfa á sjö tíma vinnudegi að ljúka því sama og þeir gerðu áður og helst betur. Til að fylgja ströngum vinnureglum um uppsagnar og tilkynningarfrest þá tekur þetta gildi núna um áramótin.

Fyrir hönd „margra“ foreldra á Akureyri.

Höfundur er foreldri leik- og grunnskólabarna.

 

Nýjast