Vegir hafa náð að blotna í dag og þar sem fyrir er þjappaður snjór og klaki verður flughált, ekki síst þegar haft er í huga hvað hvasst er orðið. Spáð stormi eða allt að 20-25 m/s um landið norðvestan- og norðanvert í kvöld og nótt. SV-átt getur orðið við þessar aðstæður mjög byljótt og rekur á harða hnúta. Dæmi um þekkta staði er norðanvert Snæfellsnesi, en þar lagast víðast mikið um leiða og vindur snýst í SV og V. Eins á norðanverðri Gemlufallsheiðinni, í Fljótum s.s. við Stafá, við Krossa á Árskógsströnd og í kvöld einnig í Ljósvatnsskarði og austantil á Tjörnesi. Í nótt er síðan gert ráð fyrir vindhviðum við Kvísker í Öræfasveit, segir í ábendingu frá veðurfræðingi á vef Vegagerðarinnar.
Þoka er á Hellisheiði og í Þrengslum. Þæfingsfærð er á Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði. Á öðrum leiðum á Suðurlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja. Hálkublettir eru á Fróðárheiði. Á flestum leiðum á Snæfellsnesi eru hálkublettir. Óveður er á norðanverðu Snæfellsnesi og á Bröttubrekku en hálkublettir á Holtavörðuheiði. Á Vestfjörðum er víðast hvar snjóþekja eða þæfingur. Á Mikladal er þó óveður og þar er þungfært. Ófært er svo á öðrum fjallvegum á Vestfjörðum nema Gemlufallsheiði, þar eru hálkublettir.
Á Norðurlandi vestra er hálka, hálkublettir og sumstaðar skafrenningur. Áframhaldandi hálka er svo nokkuð víða á Norðurlandi eystra en þæfingsfærð og skafrenningur er á Hófaskarði og Hálsum. Austanlands eru hálkublettir á fjallvegum en þó hálka á Öxi og Breiðdalsheiði. Annars er víða greiðfært á láglendi. Á Suðausturlandi er hálka frá Vík í Öræfi en annars sumstaðar hálkublettir eða autt á köflum.