Sorglegt að málið hafi farið í þennan farveg

Númerslausir bílar í eigu Auto eru enn áberandi innan bæjar á Akureyri.  Mynd HNE
Númerslausir bílar í eigu Auto eru enn áberandi innan bæjar á Akureyri. Mynd HNE

„Þetta er afskaplega sorglegt mál og leitt til þess að hugsa að það hafi farið í þennan farveg, því vel var hægt að grípa inn í miklu fyrr,“ segir Leifur Þorkelsson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands. Íbúðarhús að Hamaragerði 15 á Akureyri var boðið upp í vikunni, en HNE hefur staðið í miklu stappi við lóðarhafa um að sinna tiltekt á lóðinni sem er full af bílum í mismunandi ástandi. Um var að ræða framhaldssölu, en upphaf uppboðs hafði þá þegar farið fram.

Leifur segir að frá því í febrúar árið 2024 hafi verið beitt dagsektum, að upphæð 20 þúsund krónum á dag en smá uppihald varð í fyrrasumar þegar lóðarhafi lofaði tiltekt. Dagsektir hafa ekki verið greiddar og nam upphæðin sem safnast hafði saman um 9 milljónum króna þegar nauðungaruppboð fór fram á þriðjudag enda höfðu innheimtuaðgerðir ekki skilað neinu.

Allt var reynt

„Við höfum reynt allt, fyrst væg úrræði og síðan heldur meira íþyngjandi og málið endar með þessum hætti,“ segir Leifur. Heilbrigðisnefndin hefur undrast aðgerðarleysi lóðarhafa og að ekki hafi verið brugðist við þegar aukin harka varð í innheimtuaðgerðum. Vel hefði verið hægt að bregðast mun fyrr við kröfu um tiltekt á lóðinni með lítilli fyrirhöfn og kostnaði innan þess rúma frests sem lóðarhafa var settur til að gera úrbætur. „Það getur vart talist ósanngjörn krafa að taka til á lóð sinni,“ segir hann.

Tiltekt að Setbergi ekki sinnt

Sama er uppi á tengingunum varðandi lóð fyrirtækisins Auto að Setbergi á Svalbarðsströnd en tenging er á milli þess fyrirtækis og málsins við Hamragerði. Heilbrigðisnefnd hefur um langt skeið krafist þess að tekið yrði til á lóðinni og einnig lagt á dagssektir þar. Þær nema 50 þúsund krónum á dag og hófust í lok október í fyrrahaust. Uppsöfnuð fjárhæð sem þar um ræða er orðin veruleg eða um 16 milljónir króna.  Dagsektir hafa ekki heldur verið greiddar og eru nú komnar í hefðbundið innheimtuferli með tilheyrandi viðbótarkostnaði.

 

 Frá Setbergi

 Númerslausir bílar færðir á milli bílaplana

Númerslausir bílar í eigu Auto eru enn áberandi innan bæjar á Akureyri. Það sem af er árs hafa 10 bílar verið fjarlægðir af lóðum fyrirtækja, fjölbýlishúsa og af opnum svæðum. Leifur segir að mikið sé um að bílar séu færðir til á milli bílastæða og gjarnan í skjóli nætur. Eigandinn hafi yfirleitt leyst þá bíla sem haldlagðir eru út og nemur kostnaður við það ekki undir hálfri milljón.

Leifur segir nefndina gera mjög alvarlegar athugasemdir við þessa ítrekuðu háttsemi Auto að staðsetja númerslausa bíla sína, margar hverja í mjög slæmu ásigkomulagi bæði á einkalóðum sem og almenningssvæðum. Slíkt háttsemi sé óásættanleg og í andstöðu við lög og reglugerðir er varða hollustuhætti, mengunarvarnir og umhverfismál.

Nýjast