Fyrr á árinu var nýr göngustígur á vestanverðri Hrísey kláraður en hann liggur meðal annars að nýjum áningarstað sem útbúinn hefur verið þar sem áður var gömul steypustöð við sjávarbakkann.
Ákveðið var að óska eftir hugmyndum um nýtt nafn á áningarstaðinn. Alls bárust tillögur frá 124 einstaklingum og lögðu 12 þeirra til að gamla steypustöðin héti framvegis Steypustöðin. Í öðru sæti var heitið Sílóið sem kom fram fjórum sinnum. Steypustöðin varð því fyrir valinu segir á vefsíðu Akureyrarbæjar.
Nýi stígurinn hefur notið mikilla vinsælda í sumar enda er þar margt að sjá. Leiðin er tiltölulega auðveld og mest á sléttlendi. Útsýni er gott yfir á Tröllaskaga og til norðurs að Ólafsfjarðarmúla. Þarna gefur oft að líta seli á grjóti í fjöruborðinu.
Vinna við nýja stíginn og nýja áningarstaðinn hlaut styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.