Hollvinir Sjúkrahússins á Akureyri hafa fært dag- og göngudeild skurðlækna nýja gipssög. Gipssagir eru sérhannaðar til að saga eingöngu gifs án þess að særa húð. Nýja sögin er mun léttari, hljóðlátari og þjálari í notkun en sú gamla og léttir því störf hjúkrunarfræðinga á deildinni og gerir vonandi upplifun þjónustuþega deildarinnar af gipstöku betri. Við erum Hollvinum ákaflega þakklát fyrir að hafa veitt okkur þessa rausnarlegu gjöf.“ segja Þórgunnur Birgisdóttir, deildarstjóri dag- og göngudeildar skurðlækninga, og Eydís Unnur Jóhannsdóttir, hjúkrunarfræðingur á dag- og göngudeild skurðlækninga.
Hvetjum fólk til að gerast hollvinir
„Það er alltaf jafn gleðilegt að geta fært deildum sjúkrahússins tækjabúnað sem bætir þjónustu við sjúklinga og starfsaðstæður starfsfólks“ segir Jóhannes Bjarnason, formaður Hollvina og bætir við „Við þurfum á því að halda að starfsemi Hollvina eflist og að Hollvinir greiði þá greiðsluseðla sem berast í heimabanka, enda er það þannig sem við getum haldið áfram að veita gjafir sem þessar.“
Framlag Hollvina skiptir SAk sköpum
Það er áhugavert að hafa það í huga að á síðasta ári afhentu Hollvinir Sjúkrahúsinu á Akureyri gjafir að verðmæti 62 m.kr. en fjárfestingaheimild SAk á fjárlögum á því ári var 200,6 m.kr. Gjafir Hollvina námu því um 31% af framlagi ríkisins til fjárfestinga árið 2024. „Framlag Hollvina skiptir SAk einfaldlega sköpum, sem og framlag annarra aðila í samfélaginu til sjúkrahússins. Það er hreinlega óhugsandi að sjá fyrir sér stöðu tækjabúnaðar á sjúkrahúsinu ef ekki kæmi til gjafa frá utanaðkomandi aðilum.“ segir Konráð Gylfason, framkvæmdastjóri rekstrar og klínískrar stoðþjónustu.
Smellið hér til að gerast Hollvinur
Heimasíða Sak. sagði fyrst frá