Tónagjöf Hymnodiu og vina í Akureyrarkirkju annað kvöld (fimmtudagskvöld)

Að hjálpa einni manneskju í neyð er mikið. Að hjálpa heilli fjölskyldu er miklu meira.  Myndir aðsen…
Að hjálpa einni manneskju í neyð er mikið. Að hjálpa heilli fjölskyldu er miklu meira. Myndir aðsendar

Tónagjöf Hymnodiu og vina er yfirskrift tónleika sem haldnir verða í Akureyrarkirkju annað kvöld,  13. nóvember en þeir hefjast kl. 20. Frumkvæðið að tónleikunum á Hannes Sigurðsson einn félaga úr Hymnodiu sem fékk félaga sína til liðs við sig í verkefnið. Hann hefur stutt við bakið á sextán manna stórfjölskyldu á Gasa svæðinu undanfarna mánuði og með því að efna til tónleikanna býður hann fleirum að leggja sitt af mörkum.

„Öll erum við magnvana gagnvart skelfingunni sem fréttir frá Gasa bera vitni um. Samt er það svo að öll getum við eitthvað gert. Að hjálpa einni manneskju í neyð er mikið. Að hjálpa heilli fjölskyldu er miklu meira. Nú skulum við hjálpa saman,“ segir í tilkynningu um tónleikana, en með því að mæta gefst tækifæri til að sýna kærleika í verki en líka samstöðu með fólki sem býr svo langt í burtu við óskiljanleg skilyrði.

Hannes Sigurðsson

Í fjölskyldunni sem safnað er fyrir með tónleikunum eru sextán manns, átta börn frá 4ra mánaða til 6 ára og átta fullorðnir. Saga fjölskyldunnar verður sögð í upphafi tónleikanna.

Fann þörf fyrir að taka þátt í hjálparstarfi

„Ég hef lengi fundið fyrir þörf til að taka þátt í einhvers konar hjálparstarfi. Í vor var haft samband við mig og ég inntur eftir því hvort ég væri til í að taka þátt í borgaralegri óhlýðni til að vekja athygli á því sem þá var farið að kalla þjóðarmorð á Gaza. Ég fór í kjölfarið á fund hjá félagskap sem kennir sig við samstöðu með Palestínu,“ segir Hannes, og bætir við að hann hafi í eina tvo áratugi „fylgst með uppgangi Zíonista í Ísrael, aðskilnaðarstefnu Ísraelsstjórnar, kúgun þeirra og mismunun og réttindabaráttu Palestínumanna.“

Hannes hitti á fundinum fólk sem þegar var í hjálparstarfi og í tengslum við fólk á Gaza og fór í framhaldinu að skoða vina- og hjálparbeiðnir frá nauðstöddum, „sem varð svo til þess að ég hitti „bróður“ minn eins og við köllum Khalil AlGouti,“ segir hann. Khalil átti heima í Rafah áður en borgin varð skortmark Ísraelshers og bjó stórfjölskyldan undir sama þaki inni á heimili hans og við mikinn skort. „Þau voru með þeim síðustu sem flúðu borgina, nánast með sprengjuregnið á hælunum. Khalil smíðaði handkerru úr húsgögnum til að geta tekið með sér það allra nauðsynlegasta, en þau höfðu ekki fé milli handanna til að kaupa flutning.

Höfðust við í hálfónýtu tjaldi

Fjölskyldan endaði á Al-Mawasi svæðinu við ströndina sunnarlega á Gaza. Foreldrar hans, langveikur bróðir, þrjár systur og börn þeirra fimm bjuggu þar í einu hálfónýtu tjaldi þegar Hannes kynntist fjölskyldunni. Móðir hans hafði í tvígang fengið hitaslag og brýnt að koma henni í betra skjól. Kona hans, Nahaed var komin á áttunda mánuð með þriðja barn þeirra. Matur var mjög af skornum skammti og eitt barnanna komið með slæm einkenni vannæringar.

Khalil var eini vinnufæri karlmaðurinn í fjölskyldunni en hafði gengið mjög nærri sér við að halda um alla þræði, sjá um vatnsburð fyrir sig og að tjaldi foreldranna sem þá var í kílómetra fjarlægð frá hans tjaldi. Hann hafði að auki meiðst í baki þegar á hann féll steinn í sprengjuárás í Rafah þegar hann skýldi börnum sínum fyrir steypuhruni og þarf hann á sterkum verkjalyfjum að halda til að geta sinnt öllum sínum verkefnum.

Einbeitt mér að þessari fjölskyldu

„Ég ákvað fljótlega að einbeita mér að þessari einu fjölskyldu, þó vissulega hefðu margir óskað eftir aðstoð frá mér,“ segir Hannes. Hann hóf að safna fyrir fjölskylduna um mánaðamótin maí júní í sumar og notaði til þess ýmsar leiðir, seldi bækur og prjónuð barnaföt, hélt pönnukökulottó, skráði sig í áheitahlaup en segir að mesti stuðningurinn hafi komið frá örlátum og góðhjörtuðum vinum síum sem reglulega hafi lagt honum lið. Vonarbrú hafi einnig hlaupið undir bagga með stökum styrkjum þegar virkilega hefur þurft að taka á því í söfnuninni og kveðst hann kunna samtökunum bestu þakkir sem og sínum reglulegu stuðningsvinum sem hafa staðið sem klettur á bak við hann.

Haldið frá hungri og vannæringu

„Við höfum nú náð að halda þessari sextán manna fjölskyldu frá hungri og vannæringu undanfarna mánuði. Þá höfum við tekið á móti nýjum fjölskyldumeðlim sem nú er að verða 4urra mánaða og braggast vel. Við höfum safnað fyrir nýju tjaldi fyrir foreldra og systkin Khalil, greitt upp skuld hans fyrir landleigu undir tjald hans, keypt hlý föt og teppi fyrir flestalla fjölskyldumeðlimi, auk ungbarnastóls með moskítóneti og ýmislegt annað höfum við fjármagnað af hlutum sem ungbarn þarf á að halda,“ segir Hannes. Nú er verið að safna fyrir rafgeymum, gasi og gashellum til eldamennsku fyrir veturinn.

Frjáls framlög

Breiður hópur tónlistarfólks kemur fram á tónleikunum í kvöld og gefur af list sinni. Flytjendur verða auk Hymnodiu: Aðalsteinn Júlíusson, Elvý Guðríður Hreinsdóttir, Eyþór Ingi Jónsson, Friðjón Ingi Jóhannsson, Jóhann Björn Ævarsson, Kristjana Arngrímsdóttir, Kristján Edelstein, Margrét Árnadóttir, Petrea Óskarsdóttir, Þórarinn Stefánsson, Þórhildur Örvarsdóttir, Ösp Eldjárn og jafnvel fleiri.

Aðgangur er ókeypis en tekið verður við frjálsum framlögum

Nýjast