Á vef Akureyrarbæjar er sagt frá að í dag undirrituðu Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, og Erlingur Kristjánsson, forstöðumaður Fjölmiðjunnar, nýjan samstarfssamning um þjónustu Fjölsmiðjunnar á Akureyri.
Markmið samningsins er að efla Fjölsmiðjuna sem starfsþjálfunarstað fyrir ungt fólk á aldrinum 16-24 ára. Einnig er lögð áhersla á að styrkja tengsl og samvinnu Fjölsmiðjunnar og þeirra aðila innan bæjarfélagsins sem vinna með ungu fólki.
Fjölsmiðjan veitir atvinnulausu ungu fólki vinnu með það að markmiði að hver einstaklingur njóti sín og verði betur í stakk búinn til að takast á við kröfur samfélagsins, hvort sem er á vinnumarkaði eða í námi. Þegar ungmennin eru tilbúin eru þau studd í vinnu eða skóla.
Í Fjölsmiðjunni er rekið mötuneyti, bílaþvottastöð, búð með notuð húsgögn og fleira, auk móttöku fyrir endurvinnslu á tölvum og öðrum raftækjum. Þegar aðsókn er mest sækja um 20-25 ungmenni í Fjölsmiðjuna.