Nemendur á starfsbraut VMA í áfanganum Daglegur heimilisrekstur, sem Ragnheiður Gunnbjörnsdóttir og Inga Dís Árnadóttir kenna, efndu til nytjamarkaðar snemma í október þar sem seld voru notuð föt og ýmislegt annað gegn vægu verði. Ákveðið var að allur ágóði af markaðnum rynni til góðgerðarmála.
Nemendur ákváðu að verja tíu þúsund krónur af þeim fjármunum sem komu inn til að styrkja Krabbameinsfélag Íslands í gegnum Styrkleika VMA og Þórdunu, sem efnt var til 14. október sl., og 100 þúsund krónur rynnu til Velferðarsjóðs Eyjafjarðarsvæðisins.
Á dögunum veitti Kristbjörg Álfhildur Sigurðardóttir, fulltrúi Velferðarsjóðs, hundrað þúsund krónunum viðtöku og þakkaði nemendum fyrir frábært framtak og auðsýndan hlýhug og stuðning sem þeir sýndu sjóðnum og öllu því fólki sem þarf á stuðningi hans að halda.