Út er komin bókin Sjálfsævisaga eftir Klemens Jónsson. Ritstjórar eru Anna Agnarsdóttir emeritus og Áslaug Agnarsdóttir þýðandi. Þær eru s.s. barnabörn Klemensar, útgefandi er Sögufélagið .
Um ræðir endurminningar Klemensar sem lýsa atburðarás sem hann lifði sjálfur og eru ritaðar frá hans sjónarhorni. Stóran hluta ævinnar stóð hann á miðju leiksviði sögu Íslands. Margt af því sem hann tók þátt í til telst til lykilatburða í Íslandssögunni og persónur sem hann átti í samskiptum við eru ýmsar þjóðkunnar. Endurminningar hans fjalla þó ekki aðeins um störf hans á vettvangi stjórnmálanna heldur eru þær einnig persónuleg frásögn af fjölskylduhögum, innilegri gleði og djúpri sorg.
Hér á eftir er samantekt á þeim hluta lífs sem tengdist Akureyri og Eyjafirði:
Klemens Jónsson og Akureyri
Um Klemens Jónsson
Klemens Jónsson fæddist 27. ágúst 1862 á Akureyri, sonur Jóns Borgfirðings fræðimanns og Önnu Guðrúnar Eiríksdóttur konu hans. Jón hafði hug á að koma sonum sínum til sem bestra mennta og flutti því fjölskyldan frá Akureyri til Reykjavíkur árið 1865. Eldri bróðir hans var Finnur Jónsson prófessor, heiðursborgari Akureyrar.
Klemens gekk í Lærða skólann, varð student 1883, og lauk prófi í lögfræði við Kaupmannahafnarháskóla 1888. Hann starfaði í tvö ár við íslensku stjórnardeildina í Kaupmannahöfn, var sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Akureyri, var stuttlega settur amtmaður í Norð-Austuramtinu og var síðan skipaður landritari á heimastjórnartímabilinu 1904 til 1917 þegar embættið var lagt niður. Hann var alþingismaður Eyfirðinga 1892-1904.

Sýslumaður Eyfirðinga og bæjarfógeti Akureyrar
Klemens var settur í embætti sýslumanns og bæjarfógeta á Akureyri 1. september 1891, og síðan skipaður 13. apríl 1892. Á þessum tíma var Eyjafjarðarsýsla ein tekjumesta sýslumannsstaða landsins. Hinn 29 ára gamli embættismaður var metnaðargjarn og framfarasinnaður og lagði sig allan fram um að efla Akureyrarbæ.
Árin sem Klemens var bæjarfógeti (1891–1904) voru mikill uppgangstími í sögu Akureyrar. Íbúafjöldi bæjarins meira en tvöfaldaðist. Götur voru lagðar og upplýstar með götuljósum. Vatnsveita var lögð. Gerð var hafskipabryggja við höfnina sem var vígð 1903. Í kjölfarið hófu gufuskip siglingar milli Akureyrar og Englands og Kaupmannahafnar. Nýtt barnaskólahús var reist og tóvinnuvélaverksmiðja, fyrirrennari klæðaverksmiðju, var sett á laggirnir með stuðningi Klemensar svo að dæmi séu nefnd. Síðast en ekki síst stóð Klemens fyrir því að bærinn keypti Stóra-Eyrarland og Kotá til að auka við byggingarland sitt. Eins og Jón Hjaltason sagnfræðingur bendir á þá var þetta í fyrsta skipti sem kaupstaður keypti jörð beinlínis til að færa út byggð. Þótti ýmsum bæjarbúum í mikið ráðist, því verðið var hátt en þetta reyndist „hið mesta happaráð“. Sjálfur taldi Klemens þetta „eitt af mínum heppilegustu embættisverkum“.

Myndin er frá Hafnarstræti 3 sem Havsteen konsúll reisti. Húsið brann 1901 þegar hjónin Klemens og Þorbjörg voru í Kaupmannahöfn.
Ljósmyndari: Anna Schiöth Mynd Minjasafnið á Akureyri STÆ5-95
Þingmaður 1892-1904
Árið 1892 bauð Klemens sig fram til Alþingis í Eyjafjarðarsýslu. Hann náði kjöri, enda vinsæll, og var hann endurkosinn þangað til að hann tók að sér landritaraembættið 1904. Þá varð hann að segja af sér þingmennsku. Af Alþingistíðindum að dæma var Klemens virkur og áhugasamur þingmaður. Hann var strax kosinn ritari á alþingi 1893-1899 og í margar nefndir þar sem hann starfaði ötullega. Hann tók oft til máls eins og mælendaskrá Alþingistíðinda ber vott um en sjálfur taldi hann sig nýtast betur sem ritari og nefndarmaður. Hann var talinn hinn mesti atkvæðamaður og einn frjálslyndasti þingmaðurinn á Alþingi.
Hann sinnti eðlilega mörgum málum sem snertu kjördæmi hans, Akureyri og Eyjafjörð, til dæmis nýju skólahúsi fyrir kvennaskólann á Akureyri, endurbyggingu spítala á Akureyri og styrkjum til einstakra manna, þar á meðal til þjóðskáldsins Matthíasar Jochumssonar.
Klemens var formaður samgöngumálanefndar á Alþingi og meðal þeirra verka sem hrundið var í framkvæmd í hans tíð voru kaup á eimskipi til strandferða, bygging á brú yfir Hörgá og löggilding verslunarstaða við Eyjafjörð.
Klemens var afkastamikill fræðimaður, meðal helstu rita hans er Saga Akureyrar (1948).
Hér fyrir neðan er slóð á Blöndu, hlaðvarp Sögufélags, þar sem Markús Þórhallsson útvarpsmaður á RÚV ræðir við Önnu Agnarsdóttur um bókina.
https://sogufelag.is/blanda_hladvarp/49-anna-agnarsdottir-og-sjalfsaevisaga-klemensar-jonssonar/