Starfsemi Vélfags stöðvuð tímabundið

Starfsemi Vélfags hefur verið stöðvuð tímabundið og starfsmenn sendir heim   Mynd Ve´lfag
Starfsemi Vélfags hefur verið stöðvuð tímabundið og starfsmenn sendir heim Mynd Ve´lfag

Starfsemi Vélfags hefur verið stöðvuð tímabundið og starfsmenn sendir heim, þetta segir í tilkynningu frá forsvarsmönnum fyrirtækisins sem birt er á Facebooksíðu Vélfags nú fyrir skömmu. 

Tilkynningin er sem hér segir:

Akureyri, 11. nóvember 2025
Vegna ákvörðunar utanríkisráðuneytisins um að hafna framlengingu á undanþágu Vélfags ehf. frá þvingunaraðgerðum hefur félagið neyðst til að stöðva starfsemi sína tímabundið og senda alla starfsmenn heim á meðan beðið er dóms í máli félagsins gegn íslenska ríkinu. Ákvörðun ráðuneytisins hefur í reynd svipt félagið aðgengi að eigin fjármunum og gert því ómögulegt að sinna daglegum rekstri, þar með talið greiðslum til starfsfólks og þjónustu við viðskiptavini.
Við erum miður okkar að geta ekki sinnt íslenskum og erlendum viðskiptavinum okkar á meðan, þar á meðal útgerðum sem reiða sig á þjónustu okkar og varahluti.
————-
Vélfag hafnar röngum ásökunum utanríkisráðuneytisins

 

Í yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins í gær 10. nóvember var því haldið fram að Vélfag hafi ekki lagt fram nægileg gögn um eigendaskipti félagsins og að félagið hafi ekki sýnt samstarfsvilja.
 
Þetta er rangt og villandi.

 

Vélfag hefur ítrekað lagt fram öll þau gögn sem ráðuneytið hefur óskað eftir og meira til.
Við höfum skilað yfir hundruðum útskýringa og gagna, meðal annars:
• fullum kaupsamningum og lögfræðilegum yfirlýsingum um eigendaskipti
• staðfestum afritum fyrirtækjaskráningar og árituðum yfirlýsingum frá seljanda
• ítarlegum lögfræðilegum álitsgerðum frá óháðum sérfræðingum í Evrópurétti
• mánaðarlegum skýrslum um rekstur og fjármál félagsins
• tölulegum gögnum sem sýna að Vélfag þjónustar yfir 80% allra frystiskipatogara á Íslandi, sem ráðuneytið sérstaklega bað um að sanna í þessum mánuði
•kvittunum og útskýringum á öllum smæstu atriðum síðustu fjögurra mánaða – til dæmis um kaup á gulri málningu í BYKO til að sýna að starfsemi félagsins tengdist ekki „stríðsrekstri“
• og öðrum gögnum sem sanna fullan fjárhagslegan og stjórnunarlegan aðskilnað frá öllum aðilum á þvingunarlista.
• Að halda því fram að þessi gögn hafi ekki borist eða að Vélfag hafi ekki sýnt samstarfsvilja er einfaldlega ósatt. Slíkar ásakanir eru árás á heiðarleika fyrirtækisins og trúverðugleika íslenskrar stjórnsýslu.
————-
Þess má geta að enginn af raunverulegum eigendum félagsins eða móðurfélags þess – hvorki Ivan Kaufmann, eigandi Titania Trading Ltd., Titania sjálft né Nikita Orlov, fyrrverandi eigandi Titania – eru á neinum þvingunarlista.
Eini aðilinn á slíkum lista er Norebo JSC, móðurfélag Norebo Overseas, sem seldi hlut sinn í Vélfagi 19. júlí 2023 – fyrir rúmum tveimur árum.
————-
Í bréfi Arion banka, dags. 2. september 2025, kemur skýrt fram að:
• frysting fjármuna Vélfags hafi ekki verið ákvörðun bankans sjálfs, heldur framkvæmd að fyrirmælum utanríkisráðuneytisins
• aðeins ráðherra hafi lagalega heimild til að taka ákvörðun um aflægingu frystingar, sbr. 12. gr. laga nr. 68/2023,
• og að bankinn hafi ítrekað óskað eftir leiðbeiningum frá ráðuneytinu án þess að fá svör.
Þetta staðfestir að ráðherra ber bæði lögbundna ábyrgð og ákvörðunarvald í málinu.
Þrátt fyrir það hefur ráðuneytið vísað ábyrgðinni til banka – sem í sömu andrá hefur staðfest að hann hafi enga heimild til að bregðast við.
————-
Á meðan situr íslenskt hátæknifyrirtæki fast í stjórnleysi sem enginn aðili axlar ábyrgð á.
Þetta er brot á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins og skerðing á eignarrétti samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu.
Ráðuneytið hefur hvorki framkvæmt sjálfstæða rannsókn né lagt fram nein ný gögn.
Það hefur í staðinn endurtekið órökstudda grunsemdir sem hafa ítrekað verið hraktar með staðfestum gögnum.
Þessi stjórnsýsluhegðun brýtur gegn:
• 9. og 10. gr. stjórnsýslulaga (rannsóknar- og andmælarétti),
• meginreglu meðalhófs,
og skyldu ríkisins samkvæmt EES-samningnum til að tryggja skilvirkt réttarkerfi og virkt eftirlit með beitingu þvingunaraðgerða.
————-
Frá upphafi málsins hefur Vélfag lagt áherslu á gagnsæi og ábyrgð.
Allir sem vilja kynna sér gögnin geta gert það á www.velfagpapers.com þar sem meirihlutaeigandi hefur birt helstu skjöl, samskipti og sönnunargögn.

Nýjast