Það er sannkölluð sönghelgi framundan hjá Karlakór Akureyrar-Geysi, þar sem sungið verður á þremur stöðum á jafn mörgum dögum. Sjálfir vortónleikarnir á morgun, laugardaginn 5. maí verða þar hápunkturinn. Í dag föstudag kl. 18:30, syngur KAG í hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri. Um er að ræða smá forskot á sæluna þar sem sungin verða nokkur lög af dagskrá vortónleikanna. Annars er Hlíð reglulegur viðkomustaður KAG, en kórinn syngur þar af og til á hverju starfsári og fær alltaf jafn góðar móttökur, að sögn Snorra Guðvarðssonar formanns KAG.
Vortónleikar Karlakórs Akureyrar-Geysis eru jafnan eru jafnan hápunktur starfársins. Þeir verða í Glerárkirkju á morgun og hefjast kl. 15:00. Þar verða sungin lög úr öllum áttum, hefðbundin íslensk karlakóralög og erlend lög í bland. Fjórir einsöngvarar koma fram á tónleikunum auk þess sem KAG-kvartettinn tekur lagið. Sunnudaginn 6. maí kl. 15:00 sameinast svo Karlakór Akureyrar-Geysir, Kvennakór Akureyrar og Karlakór Siglufjarðar á tónleikum í Siglufjarðarkirkju. Félagar í KAG vita af eigin reynslu að Siglfirðingar eru skemmtilegir heim að sækja, auk þess sem nú tekur ekki nema rétt um klukkutíma að keyra til þeirra í heimsókn.
Vetrarstarfi KAG lýkur svo með aðalfundi næstkomandi mánudagskvöld en þá mun Snorra láta af embætti formanns. Snorri hefur verið formaður kórsins sl. átta og segir að það sé langur tími. Ég hef samt skemmt mér rosalega vel þennan tíma og ég vona að karlarnir hafi gert það slíka, sagði Snorri.