Solveig Lára gefur kost á sér í vígslubiskupskjöri á Hólum

Solveig Lára Guðmundsdóttir, sóknarprestur á Möðruvöllum.
Solveig Lára Guðmundsdóttir, sóknarprestur á Möðruvöllum.

Solveig Lára Guðmundsdóttir, sóknarprestur á Möðruvöllum gefur kost á sér í vígslubiskupskjöri á Hólum. “Ég legg áherslu á að vinna að stefnumótun í söfnuðum stiftisins, efla samstarf og hlúa að starfsfólki kirkjunnar. Framundan er starf við stefnumörkun biskupsembættanna og ég vil leggja mitt af mörkum til að þau þjóni kirkjunni enn betur,” segir Solveig Lára í yfirlýsingu sem hún hefur sent frá sér.

“Það sem ég tel brýnast fyrir kirkjuna nú er ákveðin stefnumótunarvinna innan safnaða og í kjölfar hennar samstarf milli nágrannapresta og  safnaðarstarfsfólks þar sem hver söfnuður hefði sín áhersluatriði. Verði ég kjörinn vígslubiskup á Hólum mun ég fyrst og fremst leitast við að hlúa að starfsfólki kirkjunnar og fjölskyldum þeirra svo og sóknarnefndum  og því góða starfi sem unnið er í söfnuðum landsins. Ég finn að sú mikla reynsla sem ég hef af sálgæslu muni nýtast mér vel í því starfi. Á Hólum er unnið mikið menningarstarf og mun reynsla mín af menningar- og fræðslustarfinu sem verið hefur hér á Möðruvöllum undanfarin ár nýtast mér vel til að koma að því starfi. Vígslubiskupsstarfið hefur hingað til mótast mjög af þeim sem þjónar starfinu hverju sinni þar sem starfinu eru enn ekki markaðar nákvæmar skorður. Sé ég fram til þess að í framtíðinni mótist biskupsþjónustan í landinu mjög af því fólki sem nú tekur við. Þar finnst mér eðlilegt að ákveðin verkefni sem unnin eru á Biskupsstofu flytjist að einhverju
marki til stólanna í Skálholti og á Hólum þannig að starfið eflist og styrkist, segir Solveig Lára ennfremur.
Hún hefur jafnframt opnað nýja vefsíðu á www.solveiglara.net þar sem hún mun ræða um málefni kirkju og samfélags.

Nýjast