Söfnum saman íþróttasögunni!

Aðalbjörg Sigmarsdóttir skrifar

Í tilefni af 100 ára afmæli Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands hefur sambandið og Félag héraðsskjalavarða á Íslandi ákveðið að ráðast í átak í söfnun skjala íþróttafélaga og héraðssambanda um land allt, þannig að þau varðveitist á öruggan hátt og verði aðgengileg á héraðsskjalasöfnum landsins. Átakið var kynnt fjölmiðlum miðvikudaginn 18. apríl 2012 og telst formlega hefjast þann dag en þá voru 100 dagar þar til Ólympíuleikar í London hefjast. Stefnt er að því að átakinu ljúki í janúar 2013 um leið og afmælisári ÍSÍ lýkur og þá verði tekið saman yfirlit yfir þau skjalasöfn sem eru varðveitt á opinberum skjalasöfnum um land allt. 

Héraðsskjalasöfn, sem eru 20 á Íslandi, eru sjálfstæðar skjalavörslustofnanir á vegum sveitarfélaga. Alls eru 25 íþróttahéruð á landinu, eða 7 íþróttabandalög og 18 héraðssambönd. Skjalasöfn íþróttafélaganna eru frumheimildir og vitnisburður um hugsjónir, baráttu, þrotlausar æfingar, töp og sigra og dugnað og elju einstakra manna. Mikilvægt er að skjalasöfn íþróttafélaganna glatist ekki, heldur séu varðveitt tryggilega og aðgengileg á einum stað. Með þetta markmið í huga er átakinu um söfnun heimilda um íþróttastarf hrundið af stað.

Hjá íþróttafélögum á Íslandi eru varðveitt margs konar skjöl sem veita innsýn í starfsemi þeirra á liðnum árum og eru þar með mikilvægur sögulegur vitnisburður sem nýtist m.a. vel á tímamótum.  Með skjölum er meðal annars átt við fundargerðabækur, sendibréf, útprentaðan tölvupóst, ljósmyndir, félagaskrár, mótaskrár, ársskýrslur, kynningarefni og annað sem rekur sögu og starfsemi félaganna. 

Mörg íþróttafélög, klúbbar og hópar hafa ekki haft sérstakt húsnæði til að geyma sín skjöl og því eru þau í mörgum tilfellum geymd heima hjá stjórnarmönnum og fyrrverandi stjórnarmönnum. Þegar frá líður lenda skjölin því oft í kössum niðri í kjallara eða uppi á háalofti og finnast kannski ekki þegar til á að taka og enginn veit hver geymdi þau eða hvað um þau varð. Þess eru einnig dæmi að skjölum hafi verið hent við flutninga, tiltekt eða skiptingu dánarbúa.  Þetta kemur oft ekki í ljós fyrr en  rifja þarf upp söguna í tilefni af afmæli, rifja upp gömul met eða skoða samninga og aðrar mikilvægar ákvarðanir.

Héraðsskjalasafnið á Akureyri varðveitir nú þegar skjöl frá fjölmörgum ungmenna- og íþróttafélögum sem hér er of langt að telja, en betur má ef duga skal. Safnsvæðið nær yfir sveitarfélögin Hörgársveit, Akureyri með Grímsey og Hrísey, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhrepp og Grýtubakkahrepp. Á heimasíðu safnsins má m.a. sjá skrár yfir félög og hvaða skjöl þau eiga í safninu á vefslóðinni http://www.herak.is/page/einkaskjol-felaga.

Cicero, hinn rómverksi stjórnmálamaður, heimspekingur og rithöfundur sem fæddur var árið 106 f.Kr. var meðvitaður um mikilvægi skjala og eftir honum er  haft: „ Það sem ekki er til í skjölum er ekki til í heiminum í raun og veru.“ Þessi speki er sígild og og vert að hafa hana í huga.

Allir þeir sem hafa umsjón með  eða hafa undir höndum íþróttatengd skjöl, eldri sem yngri, eru hér með hvattir til að hafa samband við Héraðsskjalasafnið á Akureyri varðandi mögulegar afhendingar, ráðgjöf eða aðstoð.  Þegar skjöl eru komin á skjalasafn eru þau skráð og aðgengileg og hægt að grípa til þeirra þegar á þarf að halda. 

Höfundur er héraðsskjalavörður á Akureyri.

 

 

Nýjast