Snjóframleiðsla hefst í Hlíðarfjalli eftir tvo mánuði

„Við stefnum að því að hefja snjóframleiðslu um mánaðamótin október nóvember líkt og venja er til og opna skíðasvæðið mánuði síðar," segir Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli.  Fjallið var hvítt einn morgunin nýlega og létu  viðbrögð ekki á sér standa að sögn Guðmundar.  

Guðmundur segir að hafist verði handa við framleiðslu á snjó eftir tvo mánuði, en það fari svo eftir veðri í nóvember hversu langan tíma taki fyrir snjóinn að festast, það fari eftir því hversu mikið frost er að jafnaði í þeim mánuði.  „Við viljum helst sjá 6 stiga frost hér í fjallinu á þessum tíma, þá gengur best," segir hann.

Síðastliðinn vetur var mjög góður að sögn Guðmundar, aðsókn hefur aldrei verið betri en einmitt þá og var hún 20% meiri en var árið á undan sem þó var afar gott.  Mikið var um ferðafólk í fjallinu, einkum  eftir áramótin en Guðmundur segir landsmenn hafa áttað sig á því að það geti verið jafn gaman að skíða á Íslandi og í útlöndum.  Góðar aðstæður og að vera í góðra vina hópi skipti mestu.  „Við búumst alveg við því að komandi vetur verði góður og alls ekki síðri en sá síðasti.  Við hlökkum til að hefja starfsemi og byrja að taka á móti fólki," seir Guðmundur.

Í sumar hefur verið unnið við viðhald í fjallinu, en engin stórverkefni voru á dagskránni að þessu sinni, enda komu tæki og tól vel undan liðnum vetri.

Nýjast