Smalahundafélag Hörgársveitar stofnað

Smalahundafélag Hörgársveitar var stofnað á dögunum. Fundurinn var í leikhúsinu á Möðruvöllum og mættu sex aðilar sem allir gerðust stofnfélagar, og átta aðilar komu boðum á fundinn með ósk um að ganga í félagið og eru þeir líka stofnfélagar. Þannig að stofnfélagar eru því 14 talsins. Á fundinn mætti Sverrir Möller formaður Smalahundafélags Íslands og ræddi út á hvað sá félagsskapur gengur.

Undirbúningur stofnunar félagsins hefur staðið í rúmt ár. Að upplagi voru það eigendur Border Collie hunda sem ákváðu að stofna smalahundafélag til að efla hundamenninguna í sveitinni og búa til vettfang fyrir eigendur smalahunda til að hittast og spjalla um hunda. Félagið er þó opið eigendum hvers kyns smalahunda. Smalahundafélagið hyggst stuðla að útbreiðslu góðra smalahunda og halda þjálfunarnámskeið fyrir félagsmenn og hunda þeirra. Eftirtalin voru kosin í stjórn félagsins: Aðalsteinn H. Hreinsson formaður,  Ásta J. Aðalsteinsdóttir gjaldkeri og Davíð Jónsson ritari. Þetta kemur fram á vef Hörgársveitar.

Nýjast