Guðmundur Hjálmarsson hjá G. Hjálmarssyni segir að fyrirtækið hafi verkefni fram í lok júlí eða byrjun ágúst, „en svo er bara ekki neitt eftir það," segir hann. Nú starfa 11 manns hjá fyrirtækinu en voru 22 þegar mest var, þannig að helmingsfækkun hefur orðið í mannahaldi. „Við þurftum að segja upp fólki um mánaðamótin janúar-febrúar, enda sáum við ekki fram á að hafa næg verkefni fyrir alla," segir Guðmundur. „Þetta er hörmungarástand, það má segja að við höfum færst aftur til ársins 1970, þetta er ekki gott." Guðmundur segir að lítið þýði að bjóða í verk um þessar mundir, margir verktakar bjóði afar lágt, allt niður í 50% af kostnaðaráætlun og slíkt gangi ekki upp ætli menn sér að reka fyrirtæki. „Ég nenni ekki að standa í svoleiðis vitleysu, það er betra að vera bara heima," segir hann en verkin eru gjarnan utanbæjar og þá kostar sitt að senda og halda úti vinnuflokki víðsfjarri heimabyggð.
Guðmundur Gunnarsson hjá GV gröfum tekur í sama streng og segir að kostnaður við að halda úti mannskap utan heimabyggðar sé það mikill að ekki gangi að bjóða í verk langt undir áætluðum kostnaði. „Það gerir ekki annað en að lengja í heningaról manna, eða gera fyrirsjáanleg gjaldþrot enn stærri en þyrfti. Það er því betra að taka ekki þátt í þessu," segir hann. Félagið hefur einhver verkefni næstu vikur, eitthvað fram á sumar, en útlitið er ekki bjart, „við verðum búnir með það sem við höfum einhvern tíma í júní og eftir það sé ekki mikið framundan. Það halda allir að sér höndum og mér sýnist ekkert framundan hjá ríkinu, það er lítið að gerast á þeim vettvangi þykir mér." Nú starfa 22 menn hjá GV gröfum, en voru allt upp í 40 þegar mest var umleikis. „Það er í raun ekki hægt að gera neitt nema bíða og sjá hverju fram vindur á næstu viku, en ef ekkert gerist er starfsemi af þessu tagi sjálfhætt," segir Guðmundur.
Finnur Aðalbjörnsson hjá Finni ehf. segist hafa næg verkefni um þessar mundir, m.a. við gerð undirganga við Hörgárbraut og frágang við reiðhöll. „Við höfum aldrei séð langt fram í tímann hvað verkefni varðar. Við erum ágætlega settir eins og er, vorum heppin að fá þessi tvö nokkuð stóru verkefni núna," segir hann. Alls starfa 9 manns hjá fyrirtækinu og hefur ekki þurft að grípa til uppsagna. „Maður finnur það sterkt að þessi bransi er ekki mjög líflegur um þessar mundir, þó ég kvarti ekki. Það verður bara að koma í ljós hvernig málin þróast þegar líður á sumarið," segir Finnur.