Laugardaginn 24. mars hófst skráning í sumarbúðir KFUM og KFUK að Hólavatni og eru nú þegar skráð um 100 börn. Í sumar verður boðið upp á átta flokka fyrir börn á aldrinum 7-14 ára. Fyrsti flokkur sumarsins hefst 7. júní og er það Frumkvöðlaflokkur fyrir 7-8 ára stráka og stelpur og er sá flokkur aðeins þrír dagar og endar flokkurinn á laugardegi en þann dag er foreldrum og systkinum boðið að koma og taka þátt í lokadeginum. Aðrir flokkar sumarsins eru fimm daga flokkar frá mánudegi til föstudags en auk hefðbundinna flokka má nefna tvo Ævintýraflokka fyrir 11-14 ára, einn fyrir stráka og annan fyrir stelpur og svo sérstakan Listaflokk fyrir 9-12 ára stelpur.
Sumrinu lýkur svo með fjölskylduflokk sem verður helgina 27.-29. júlí en þar er um að ræða nýjung í starfi Hólavatns. Nýtt húsnæði sem tekið verður í notkun í sumar gjörbreytir allri aðstöðu við sumarbúðirnar en í nýbyggingunni eru 5 ný herbergi fyrir börn, 2 ný starfsmannaherbergi og nýjar snyrtingar og sturtur. Eldri svefnsölum hefur verið breytt í tómstundaherbergi og verður því öll aðstaða til leikja og föndurs eins og best verður á kosið.
Skráning og allar frekari upplýsingar eru á www.kfum.is.