„Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um breytingu á áðurútgefinni verðskrá. Komi til breytinga þarf að liggja fyrir vissa um að þær séu vegna bættrar stöðu og að hún hafi þá raungerst. Slíkt liggur ekki fyrir á þessari stundu,“ segir Ágúst Torfi Hauksson framkvæmdastjóri Norðlenska.
Stjórnir félaga sauðfjárbænda í Eyjafirði, Suður Þingeyjarsýslu og sem og félög þeirra á Austurlandi hafa skorað á stjórn, framkvæmdastjóra og aðra stjórnendur Norðlenska að hækka þegar í stað afurðaverð til sauðfjárbænda. Fram kemur í bréfi frá félögunum að fyrirtækið hafi sýnt metnað í vöruþróun og framsetningu, innleggjendur þess framleiði gæðavöru, ekkert í birgðastöðu eins og hún blasti við í upphafi sláturtíðar réttlæti svo afgerandi lækkun afurðaverðs og því sé óásættanlegt að rekstrargrundvöllur lambakjötsframleiðslu sé að fullu og öllu brostinn á svæðinu.
Greiðslufall og fjöldagjaldþrot
„Afleiðingarnar þarf vart að tíunda; stórfellt hrun í greininni, greiðslufall og fjöldagjaldþrot sauðfjárbúa með tilheyrandi byggðaröskun og harmleikjum fjölda fjölskyldna. Slíkt hrun hefði auk þess sterk neikvæð áhrif á aðra framleiðendur á innlendum kjötmarkaði og afurðafyrirtækin sjálf,“ segir í bréfi stjórnarmanna fjögurra félaga sauðfjárbænda á Norður og Austurlandi.
Skorað er á Norðlenska að standa með sauðfjárbændum, sýna metnað og taka ábyrgð með því að hækka afurðaverð til sauðfjárbænda þegar í
stað. Ágúst Torfi segir að stjórn og stjórnendur Norðlenska muni fylgjast vel með næstu viku og mánuði og taka ákvarðanir þegar og ef forsendur
leyfa.