Skólastarf í Verkmennta- skólanum á Akureyri hófst í dag

Haustönnin hjá Verkmenntaskólanum á Akureyri hófst í dag með afhendingu stundataflna en kl. 8.30 í fyrramálið verður fundur með nýnemum og kl. 9.55 hefst kennsla samkvæmt stundaskrá. Á fundi starfsfólks kom fram hjá skólameistara að 1380 nemendur hefðu þegar verið skráðir í skólann, sem er met fjöldi. Einnig kom fram að skólinn hefði þurft að neita á þriðja hundrað nemendum um skólavist.   

Á sama tíma koma sparnaðaraðgerðir ríkistjórnarinnar niður á fjarnáminu, en þar verða færri teknir inn en áður. Strax á haustönn 2009 verður grunnskólnemendum hafnað og frekari fækkun er í bígerð á næstu önn. Á Starfsbraut skólans setjast í þetta sinn 46 nemendur og hefur þeim fjölgað verulega síðan á síðasta ári. Til að þjónusta þessa nemendur hefur skólinn þurft að ráða tvo nýja kennara á starfsbrautina. Framkvæmdir við viðbyggingu við skólann fyrir þessa braut hefjast fljótlega. Þá hefur skólinn ráðið tvo starfsmenn til að gæta bílastæða skólans og vísa nemendum sem vilja reykja á þar til gert svæði í norð-vestur horni lóðarinnar. Vonast er til að störf þessara starfsmanna á plani muni bæta brag og menningu á skólalóðinni. Heimild er nú í lögum til að taka gjöld af þeim sem vilja nota bílastæðin við skólann og er verið að skoða hvort þörf er á því og þá hvernig það væri gert.

Á fyrsta skóladegi hefst átak gegn reykingum á skólóðinni. Undanfarna tvo vetur hefur nemendum verið heimilt að reykja utan við skólalóðina við innkeyrsluna að austan. Mikil brögð hafa verið að því að fólk hafi staðið og reykt innan lóðarinnar og hafa skapast af þessu mikil leiðindi fyrir utan allan sóðaskapinn sem þessu fylgir. Nú verður þeim sem reykja vísað á norðvestuhorn skólalóðarinnar. Þar hefur verið komið upp aðstöðu, utan lóðar, þar sem fólk getur staðið í skjóli við þessa iðju sína. Þetta kemur fram á heimasíðu VMA.

Nýjast