Skóladeild þarf að lækka kostnað við rekstur grunnskólanna

"Það lá ljóst fyrir að lækka þyrfti kostnað og augljóslega getum við ekki tekið neitt af okkar lögbundna kostnaði," segir Gunnar Gíslason framkvæmdastjóri skóladeildar Akureyrarbæjar. Kostnaður við rekstur skóladeildar er um 4 milljarðar á ári, sem er um helmingur útgjalda bæjarins en þar af er launakostnaður um 80% af upphæðinni, húsnæðiskostnaður er á bilinu 16 til 18%.  

Til að mæta lægri útgjöldum hefur nú verið skrúfað fyrir rennsli á heitu vatni og flóðlýsing tekin af sparkvöllum við grunnskóla bæjarins. Rekstur vallanna nemur um 5 milljónum króna á ári að sögn Gunnars, þ.e. rafmagn og hiti. Þá hefur skautakennsla fyrir nemendur í 3. og 4. bekk  í samstarfi við Skautafélag Akureyrar verið felld niður sem og skíðakennsla fyrir nemendur í 5. bekk sem var í samstarfi við Hlíðarfjall.  Kostnaður við skíða- og skautakennslu nam 1 til 2 milljónum króna fyrir hvora grein, en kostnaður við rútuferðir milli staða var stór póstur.  Loks eru uppi áform um að fella niður ferðir nemenda 7. bekkjar á Skólabúðirnar á Reykjum frá og með næsta skólaári.

Gunnar segir að menn verði nú að laga sig að breyttum aðstæðum, allt kapp verði lagt á að halda fólki í starfi og því komi vart til greina að skera niður launakostnað með því að segja upp starfsfólki.  "Vonandi tekst okkur það, því það er mjög mikilvægt," segir hann.  Ekki sé því ýkja mikið svigrúm til að lækka kostnað nema  með þessum hætti, skera niður ferðakostnað sem kostur er sem og kostnað við námskeið og annað slíkt. Hann kveðst hafa orðið var við óánægju vegna þessa og skilji vel að fólk sé ekki ánægt þegar ákvarðanir af þessu tagi eru teknar.  "Það er engum ljúft að fara í svona aðgerðir en okkur er þröngt skorinn stakkur og ekki af miklu að taka," segir Gunnar.

Nýjast