Skoðaður verði möguleiki á undirgöngum undir Miðhúsabraut

Á síðasta fundi skipulagsnefndar Akureyrar var tekið fyrir erindi frá fulltrúum úr hverfisnefnd Naustahverfis, sem vildu vita hvort bærinn gæti sáð í óbyggð svæði þar sem búið er að skila inn lóðum. Einnig hvort hægt væri að skoða mögulega gerð undirganga undir Miðhúsabraut. Í bókun skipulagsnefndar kemur fram að samkvæmt núgildandi deiliskipulagi sé ekki gert ráð fyrir undirgöngum undir Miðhúsabraut við Kjarnagötu.  

Skipulagsnefnd bendir á að það er á ábyrgð lóðarhafa að græða upp lóðir sem úthlutað hefur verið og jarðvegi raskað. Aðgerðir eru í gangi til að knýja á um að þeir lóðarhafar gangi frá lóðunum á viðunandi hátt þar sem framkvæmdir hafa eða munu sjáanlega liggja niðri um einhvern tíma. Akureyrarbær sáir hinsvegar í opin svæði sem eru utan úthlutaðra lóða. Samkvæmt núgildandi deiliskipulagi er ekki gert ráð fyrir undirgöngum undir Miðhúsabraut við Kjarnagötu, sem fyrr segir. Á næstu vikum verður kláruð vinna við hringtorg á mótum Kjarnagötu og Miðhúsabrautar og verður þá gerð gönguleið yfir Miðhúsabraut sem tengir saman gönguleiðir í Naustahverfi og Lundahverfi.

Nýjast