Í sumar eru í boði tvær ferðir á viku. Auk þessa er báturinn til leigu í hópferðir. Á fimmtudögum er siglt til Hjalteyrar þar sem farþegum gefst kostur á að skoða það sem í boði er í Verksmiðjunni á Hjalteyri og annað sem staðurinn býður uppá. Brottför frá Torfunefi kl.16.00 og komið til baka kl. 21.00. Á föstudögum er boðið uppá sögusiglingu um Pollinn með leiðsögn. Siglt er með ströndinni og skoðað það merkverðasta sem fyrir augu ber og sagt frá því lífi sem áður var á þessu svæði. Brottför frá Torfunefi kl. 20.00, 1,5-2 tímar.
Hollvinir Húna II. hafa notið mikillar velvildar einstaklinga, stofnana og fyrirtækja við varðveislu bátsins á umliðnum árum, án þessa velvilja væri það starf sem félagið ynnir af hendi ekki mögulegt. Af því tilefni hefur félagið ákveðið að gefa 100 miða í sögusiglingar til skjólstæðinga Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eysta. Miðarnir gilda í allar söglusiglingar í sumar. Með þessu vilja Hollvinir Húna II. þakka þann velvilja og stuðning sem félagið hefur verið aðnjótandi á umliðnum árum.