Bæjarstjórn Akureyrar hefur falið bæjarráði að skipa starfshóp sem útbýr viðbragðsáætlun vegna ofbeldis, áreitis og/eða kynferðislegrar áreitni sem kjörnir fulltrúar kunna að verða fyrir í störfum sínum fyrir bæinn. Eva Hrund Einarsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, óskaði eftir umræðu um „Í skugga valdsins #metoo“ fyrir hönd allra kvenna í bæjarstjórn á síðasta bæjarstjórnarfundi.
Í bókun sem var samþykkt samhljóða segir m.a.: „Skal þessi áætlun vera unnin í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og stjórnmálaflokka á Akureyri. Eins skal þessi starfshópur yfirfara siðareglur og nýliðafræðslu kjörinna fulltrúa.“