Skil á drykkjarumbúðum hjá Sagaplast á Akureyri jukust um 8,3% á milli áranna 2010 og 2011. Halldór Gíslason rekstrarstjóri segir að aukningin hafi að mestu verið á fyrri hluta síðasta árs, en þá voru skil á drykkjarumbúðum mjög góð. Ef til vill er skýringin sú að Akureyringar byrjuðu á þeim tíma að flokka sorp og fara með það sem endurvinnanlegt er í grenndargáma, segir hann. Hann segir að alltaf séu nokkrar sveiflur í skilum, en að jafnaði komi flestir yfir sumarmánuðina, umtalsvert meira komi þá af dósum, flöskum og öðrum drykkjarumbúðum til endurvinnslu en aðra mánuði ársins.
Það sýnir ef til vill hvað hagkerfið stækkar hjá okkur yfir þessa mánuði, þá eru margir á ferðinni og umsvifin aukast á öllum sviðum, segir Halldór. Hann nefndir einnig að eftir efnahagshrun hafi aukning orðið í skilum, enda vilji menn gera sér pening úr þeim verðmætum sem felast í drykkjarumbúðum.