Sjúkraflug jókst um 19% milli ára

Sjúkraflug á Akureyri jókst um 19% á milli ára en á árinu 2017 var farið í 799 flug með 849 sjúklinga. Læknir fór með í um 40% tilfella. Aukning er bæði í forgangsflugi og flutningi sjúklinga frá Landspítala á aðrar sjúkrastofnanir. Þetta kemur fram í pistli Bjarna Jónassonar forstjóra Sjúkrahússins á Akureyri.

Legudögum fjölgaði um 1,5%. Meðallega á öllum deildum var 4,6 dagar en 3,4 dagar ef einungis er skoðuð meðallega á bráðadeildum. Eru þetta óbreyttar tölur frá fyrra ári. Fæðingar voru 387 sem er tveimur færri en á fyrra ári. Skurðaðgerðum fjölgaði nokkuð. Komur á bráðamóttöku stóðu í stað á milli ára en erlendum sjúklingum hélt áfram að fjölga, eða um 9%, voru 717 en 656 árið 2016. Þá gekk vel að stytta biðtíma eftir aðgerðum í samræmi við átak stjórnvalda.

„Gerðar voru 363 gerviliðaaðgerðir á árinu og hafa þær aldrei verið fleiri, en 156 voru gerðar í tengslum við átakið. Til gamans má geta þess að um 23% allra gerviliðaaðgerða á landinu eru gerðar á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Auk þessa voru gerðar um 300 augasteinsaðgerðir þar af 94 í tengslum við átakið. Þá var bætt við 18 kvensjúkdómaaðgerðum í tengslum við styttingu biðlistanna. Þessi fjölgun aðgerða hefur kallað á mikla útsjónarsemi og endurskipulagningu vinnulags þeirra sem að þessu verkefni hafa komið,“ segir í pistli Bjarna Jónassonar.

Nýjast