Sjávarútvegsmál til umræðu í bæjarstjórn Akureyrar

Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í gær, óskaði Jóhannes Gunnar Bjarnason bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins eftir því að sjávarútvegsmál yrðu tekin til umræðu. Tilefnið er fyrirhuguð fyrningarleið ríkisstjórnarinnar á kvóta sjávarútvegsfyrirtækja. Hann lagði fram tillögu að bókun, sem meirihluti bæjarstjórnar samþykkti að vísa til bæjarráðs.  

Jóhannes lagði fram tillögu að bókun svohljóðandi á fundinum:  "Bæjarstjórn Akureyrar skorar á ríkisstjórn Íslands að endurskoða þau áform sín að fara svokallaða fyrningaleið í úthlutun fiskikvóta gagnvart útgerðarfyrirtækjum á Íslandi. Flestum ber saman um að núverandi kvótakerfi er gallað og mun eðlilegra að sníða þá vankanta af en fara þessa leið. Rekstrargrundvöllur og áætlanir eru í uppnámi vegna fyrirhugaðra breytinga og við slíkt getur undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar ekki búið til lengri tíma."

Fram kom tillaga um að vísa tillögunni til bæjarráðs og var hún samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum. Dýrleif Skjóldal, Kristín Sigfúsdóttir, Víðir Benediktsson og Jóhannes Gunnar Bjarnason sátu hjá við afgreiðsluna.

Nýjast