Til stendur að opna veitingastaðinn Sjanghæ á Akureyri aftur á morgun en staðnum var lokað þann 30. ágúst vegna fréttar Rúv um meint vinnumansal á staðnum. Eins og fram kom í fréttum fyrr í vikunni mun eigandi Sjanghæ, Rosita YuFan Zhang, leita réttar síns vegna umfjöllunar Rúv um málefni staðarins.
Lögfræðingur Rositu, Jóhannes Már Sigurðarson, segir í skriflegu svari til blaðsins að hún sé staðráðin í því að láta ekki umrædda fréttaumfjöllun leiða til þess að staðurinn verði endanlega lokaður. Hins vegar sé ljóst að langtímaáhrifin eigi eftir að koma betur í ljós.