Silja Dögg gefur ekki kost á sér í vor

Silja Dögg Baldursdóttir.
Silja Dögg Baldursdóttir.

Silja Dögg Baldursdóttir bæjarfulltrúi L-listans á Akureyri mun ekki gefa kost á sér í komandi bæjarstjórnarkosningum í vor. Silja hefur stundað trúnaðarstörf fyrir L-listann frá árinu 2002 og setið í bæjarstjórn síðustu fjögur árin.

„Þetta tímabil hefur verið mikill skóli og verkefnin hafa verið krefjandi, skemmtileg og gefandi. Ég hef fengið að kynnast og starfa með frábæru fólki, bæði samstarfsmönnum í bæjarmálunum sem og starfsmönnum bæjarins. Ég tel nú sem áður gríðarlega mikilvægt að konur og ungt fólk taki virkan þátt í stjórnmálum og umræðu um þau. Við fáum alltaf besta samfélagið þegar sem fjölbreyttasti hópurinn vinnur saman og þeirra rödd þarf að heyrast," segir Silja í tilkynningu.

"Ég hvet alla þá sem eru enn í skápnum að drífa sig út. Ég hef ákveðið að eltast við annan draum sem settur var á bið fyrir fjórum árum síðan. Ég mun styðja við, og fylgja, L listanum í komandi kosningabaráttu – ég er L lista manneskja í hjarta mér og verð það ávallt. Síðustu fjögur ár hefur verið frábær tími og ég er þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri, og verið treyst til, að vera virkur þátttakandi í uppbyggingu samfélagsins okkar."

Áður hafði Matthías Rögnvaldsson oddviti L-listans og forseti bæjarstjórnar gefið út að hann muni ekki bjóða sig fram og því ljóst að báðir bæjarfulltrúar L-listans hverfa á braut.

Nýjast