Sigmundur Davíð ánægður með nýjan samgönguráðherra

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokks.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokks.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokks í Norðausturkjördæmi og fyrrverandi forsætisráðherra segist í Facebookfærslu hafa lent í því í dag að þurfa hrósa nýjum ráðherra.

Þingmaðurinn er þar að tala um Jón Gunnarsson, nýjan samgöngu-, fjarskipta- og byggðamálaráðherra. Sigmundur Davíð segir hann koma sterkann inn með því að sýna skilning á mikilvægi Reykjavíkurflugvallar.

Vísir greindi frá því í dag að Jón telji enga aðra lausn í stöðunni aðra en þá að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. „Það er engin önnur lausn í stöðunni. Það er auðvitað áhugavert að skoða allar framtíðarpælingar um eitthvað annað, en það er eitthvað sem er komið svo stutt á veg að það mun í mínum huga taka mörg ár að koma niðurstaða í. Á meðan getum við ekki búið við einhverja óvissu um Reykjavíkurflugvöll,“ segir Jón í samtali við Vísi.

Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og fyrrum borgarfulltrúi sjálfstæðisflokksins er á allt öðru máli. Hann tjáði sig um málið á Twitter í dag og tengdi í frétt Vísis þar sem rætt var við Jón. Þar segir Gísli að þetta sé ömurleg byrjun hjá ráðherranum. „Gerir stjórnarsáttmálann að marklausu plaggi og gefur tón um illindi og heift,“ skrifar hann.

 

Nýjast