Síðasta ár merkt atvinnuleysi, kaupmáttarrýrnun og óöryggi

Aðalfundur Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni var haldinn í gær.
Aðalfundur Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni var haldinn í gær.

Aðalfundur Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni (FVSA) var haldinn í Alþýðuhúsinu á Akureyri í gær. Um síðustu áramót voru félagsmenn 2.049; 814 karlar og 1.225 konur. Þar af eru 310 lífeyrisþegar. Úlfhildur Rögnvaldsdóttir kynnti skýrslu stjórnar og þar kom m.a. fram að þó starfsemi félagsins hefði verið með hefðbundnum hætti á síðasta ári, þá var þetta mikið framkvæmdaár í sögu félagsins. Úlfhildur fjallaði einnig um atvinnumálin og sagði að þetta þriðja ár frá efnahagshruninu væri eins og hin tvö fyrri merkt atvinnuleysi, kaupmáttarrýrnun og óöryggi á flestum sviðum. Þó hefðu örlítið færri félagsmenn verið á atvinnuleysisbótum flesta mánuði árisins miðað við 2010.

Í máli Úlfhildar kom fram að á síðasta aðalfundi hefði verið sagt frá fyrirhuguðu samstarfi fjögurra stéttarfélaga á þriðju hæð Alþýðuhússins. „Ákveðið var að breyta suðurhluta þriðju hæðar þannig að félögin fjögur hefðu sameiginlega móttöku. Verkið var boðið út í ágúst og þegar framkvæmdir hófust fluttum við starfsemi skrifstofunnar í bráðabirgðaraðstöðu í norðurhluta þriðju hæðar. Í nýuppgert húsnæðið fluttum við svo í lok desember og höfum verið að koma okkur þar fyrir smátt og smátt. Húsnæðið var til sýnis fyrir félagsmenn og gesti 10. febrúar sl. og var ekki annað sjá en að gestir væru ánægðir með breytinguna. Við starfsfólkið erum afar ánægð með hvernig til hefur tekist og trúum að þjónusta við félagsmenn verði enn skilvirkari en áður. Kostnaður okkar félags við húsnæðið ásamt kaupum á sameiginlegu innbúi og ýmsum tækjum mun verða um 15 milljónir.“

Úlfhildur fjallaði um endurskoðunarákvæði kjarasamningsins sem voru til umfjöllunar í janúar þar sem var lagt mat á  hvort ástæða væri til að segja samningnum upp vegna forsendubrests, „því ríkisstjórnin hefur ekki staðið við gefin loforð samkvæmt yfirlýsingu sem hún gaf 5. maí og er hluti kjarasamningsins. Haldnir voru tveir formannafundir ASÍ í janúar og yfirgnæfandi meirihluti á þeim fundum taldi að ekki væri ráðlegt að falla frá samningnum á þessum tíma. Þó er ljóst að aðstæður í þjóðfélaginu hafa lítið batnað undanfarið ár, enn er allt of mikið atvinnuleysi, verðbólga of mikil og skuldsett heimili afar illa stödd.“

Þá fjallaði Úlfhildur um nýlega útkomna skýrslu um starfsemi lífeyrissjóðanna sem sýnir að þeir hafa orðið fyrir mjög miklu tapi til viðbótar því að hafa þurft að skerða réttindi verulega á undanförnum árum, þ.e.a.s almennu sjóðirnir. „Í skýrslunni kemur berlega í ljós sá hróplegi mismunur sem er á kjörum þeirra sem greiða annars vegar til okkar almennu lífeyrissjóða og hins vegar til opinberu sjóðanna. Þó allir sjóðir hafi tapað kemur það aldrei niður á opinberu sjóðunum, þeir eru gulltryggðir af ríkissjóði, almenningur borgar brúsann.“

Þetta kemur fram á vef FVSA.

 

 

Nýjast