Sextán herbergja hótel opnar á Húsavíkurhöfða

Gistiheimili Húsavíkur vinnur nú að uppbyggingu 16 herbergja hótels fremst á Húsavíkurhöfða, þar sem áður var rækjuvinnsla Fiskiðjusamlags Húsavíkur. Fyrri áfanga af tveim verður lokið í vor og verður Hótel Húsavíkurhöfði opnað 25. maí á næsta ári. Frá hinu nýja hóteli verður gott útsýni yfir höfnina, flóann og bæinn. Herbergin sem opna í vor eru á jarðhæð og verða mjög rúmgóð. Í síðari áfanga verða innréttuð herbergi í risi hússins.

Húsið sem var reist af Fiskiðjusamlagi Húsavíkur árið 1950 hefur hýst ýmiskonar atvinnustarfsemi. Fyrst var þar saltfiskvinnsla, síðar rækjuvinnsla og loks trésmiðja. Nú mun húsið enn á ný fyllast af lífi og hýsa ferðamenn sem koma til að skoða bæinn.

 

 

Nýjast