Sex stöðugildi bætast við og mætt vaxandi húsnæðisþörf lögreglunnar

Eins og frá hefur verið greint verður fangelsinu á Akureyri lokað þann 15. septemeber. Ákvörðun dómsmálaráðherra um lokun í sumar var mótmælt harðlega og því var ákveðið að fresta áformum um lokun fangelsisins. Nú liggur hins vegar fyrir að lokunin stendur.

Á vef Stjórnarráðsins segir að í kjölfarið hafi ríkislögreglustjóra verið falið að leggja mat á hugsanlegan viðbótarkostnað lögreglunnar á Norðurlandi eystra og gera tillögur um mögulegar mótvægisaðgerðir vegna fyrirhugaðrar lokunar fangelsisins.

Fyrir liggur að rekstur fangelsisins og lögreglunnar hefur verið mjög samofinn í gegnum tíðina. Aldrei hafi staðið til að lokun fangelsisins yrði til þess að veikja almenna löggæslu á Norðurlandi eystra. Markmið ráðuneytisins sé að efla starfsemi lögreglunnar í öllum landshlutum.

Fjórar stöður bætasta við og húsnæðið endurnýjað

Meðal aðgerða til eflingar almennri löggæslu á Akureyri og nágrenni er að embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra verður nú þegar styrkt um fjórar stöður lögreglumanna til að sinna almennri löggæslu í umdæminu. Um er að ræða styrkingu sem nemur um 60 m.kr. á ári. Þetta samsvarar um 6 stöðugildum lögreglumanna. Nemur styrking embættis lögreglustjórans á Norðurlandi eystra því 10 stöðugildum eða ríflega 150 m. kr. á þessu og síðasta ári að teknu tilliti til þeirra fjögurra lögreglumanna sem nú verða ráðnir til starfa hjá embættinu. Í maí sl. voru 79 lögreglumenn starfandi hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra í 63.4 stöðugildum.

Þá verður húsnæði fangelsisins í Þórunnarstræti 138 á Akureyri endurnýjað og breytt til að mæta vaxandi húsnæðisþörf lögreglunnar. Nú þegar hefur verið rætt við Ríkiseignir þannig að undirbúningur, þarfagreining og hönnunarvinna við breytingu húsnæðisins getur hafist mjög fljótlega að höfðu samráði við lögreglustjórann á Akureyri. Breyting húsnæðisins hefur verið sett á framkvæmdaáætlun ársins 2021. Að mati Ríkiseigna getur kostnaður við framkvæmdina numið allt að 80 m. kr. Framkvæmdir gætu að mati stofnunarinnar farið af stað um mitt næsta ár.

Efla sérsveitina á Akureyri

Þá hefur ríkislögreglustjóri ákveðið að efla starfsemi sérsveitarinnar á Akureyri. Þar verða nú minnst tveir sérsveitarmenn með fasta búsetu auk nauðsynlegs búnaðar í stað eins sérsveitarmanns líkt og nú er raunin. „Þetta er lágmark nauðsynlegrar mönnunar sveitarinnar og kemur til með að efla löggæslu á Norðurlandi eystra,“ segir á vef Stjórnarráðsins.

Þrátt fyrir lokun fangelsisins verður tryggt að lögreglan á Norðurlandi eystra geti nýtt sér úrræði til gæsluvarðhaldsvistar á staðnum þegar þörf krefur, í samræmi við undanþáguheimild í 4. mgr. 17. gr. laga um fullnustu refsinga. Í því skyni verða viðeigandi ráðstafanir gerðar til þess að gæsluvarðhaldsklefar lögreglunnar uppfylli þær kröfur sem gera verður m.a. í ljósi alþjóðlegra skuldbindinga.

Fangelsið ekki lengur mikilvægur hlekkur

Á vef Stjórnarráðsins segir að fangelsið Akureyri hafi á árum áður verið mikilvægur hlekkur í fangelsiskerfinu en vegna ýmissa þátta m.a. breytingu á löggjöf, lokunar á litlum fangelsum og stækkunar á öðrum, nýju fangelsi á Hólmsheiði og þreföldunar á fjölda rýma í opnum fangelsum, hefur mikilvægi þess minnkað verulega á síðustu 10-20 árum. Þá er nám og vinnuframboð meira og fjölbreyttara eftir því sem fangelsin eru stærri, hærra öryggisstig er í stærri lokuðu fangelsunum og þau eru einnig hagkvæmari einingar. Föngum í stærri fangelsum býðst meiri þjónusta sérfræðinga í heilbrigðisþjónustu og þeir eiga kost á fjölbreyttari vinnuframboði og námi en í litlu 10 manna fangelsi. Þá sé útilokað að fangar afpláni allan sinn tíma á Norðurlandi eystra.

Nýjast