Áhrif rekstrarstöðvunar PCC á Bakka; atvinnumál í Norðurþingi.

Merki fyrirtækja sem lokun PCC á Bakka hefur veruleg áhrif á.
Merki fyrirtækja sem lokun PCC á Bakka hefur veruleg áhrif á.

Rekstrarstöðvun PCC á Bakka hefur víðtæk áhrif í samfélaginu á Húsavík og nágrenni. Starfsfólk hefur misst vinnu og eru margir að meta sína stöðu. Ætla má að a.m.k. 20-30 verktakar, iðnaðarmenn og þjónustufyrirtæki verði fyrir beinum áhrifum vegna minni umsvifa. Sveitasjóður og Hafnasjóður Norðurþings verða fyrir miklum fjárhagslegum áhrifum og þarf að horfa til þess við fjáhagsáætlanagerð nú í haust.

Það er jákvætt að fjármálaráðuneytið hafi samþykkt að taka upp mál PCC og hefja rannsókn á innflutningi á kísilmálmi frá Kína. Mikilvægt er vinna hratt í þeirri rannsókn og vonandi að niðurstaðan verði jákvæð. Þannig aukast líkur á að hægt verði að hefja starfsemi PCC á ný.

Sveitarstjórn Norðurþings hefur á kjörtímabilinu lagt mikla áherslu á uppbyggingu græns iðngarðs á Bakka. Einnig hefur verið horft á nauðsyn þess að fjölga atvinnutækifærum í sveitarfélaginu í heild og að orkan sem til verður á svæðinu nýtist til atvinnusköpunar hér. Vonandi skilar sú vinna árangri á næstu mánuðum.

Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri í Norðurþingi

Starfshópur fimm ráðuneyta um stöðu atvinnulífs í Norðurþingi hefur verið að störfum í sumar og mun skila af sér til forsætisráðherra um miðjan september. Samtal sveitarfélagsins og starfshópsins hefur verið mjög gott, mikil upplýsingagjöf og stöðutaka á hinum ýmsu verkefnum. Á næstu vikum þarf að taka ákvarðanir um aðgerðir til skemmri og lengri tíma til að draga úr áhrifum rekstrarstöðvunar PCC og styðja við ný tækifæri til eflingar atvinnulífs í Norðurþingi.

Nýjast