Sex nýir starfsmenn hjá Saga Capital Fjárfestingarbanka

Saga Capital Fjárfestingarbanki hefur kynnt til sögunnar sex nýja starfsmenn og eru starfsmenn bankans því 34 talsins nú um stundir. Höfuðstöðvar Saga Capital eru á Akureyri en bankinn er einnig með skrifstofu í Reykjavík. Af þessum sex nýju starfsmönnum er fjórar konur og tveir karlar.  

Borghildur Sif Marinósdóttir hefur verið ráðin til starfa sem sérfræðingur á Uppgjörssviði Saga Capital Fjárfestingarbanka. Borghildur er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og starfaði áður sem sérfræðingur hjá Glitni og hjá Landsbanka Íslands.

Guðrún Högnadóttir hefur tekið til starfa sem sérfræðingur á Uppgjörssviði. Guðrún er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og stundar nám til prófs í verðbréfaviðskiptum. Hún starfaði áður hjá Landsbanka Íslands og Skattstofu Vesturlandsumdæmis.

Írena Elínbjört Sædísardóttir er nýr starfsmaður á Fjármálasviði Saga Capital. Írena er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hún starfaði áður m.a. hjá Norvík hf. sem á meðal annars BYKO, ELKO, Nóatún og Krónuna.

Katrín Ýr Pétursdóttir er nýráðin framkvæmdastjóri Uppgjörssviðs Saga Capital. Hún stundar nám í rekstrar- og viðskiptafræði við Háskóla Íslands og starfaði áður sem deildarstjóri bakvinnslu og erlendra viðskiptatengsla hjá Arion verðbréfavörslu, hjá Kaupþingi sem deildarstjóri bakvinnslu og við þróun kerfismála og í erlendum viðskiptum hjá Seðlabanka Íslands.

Óli Þór Jónsson er nýr starfsmaður á sviði eigin viðskipta hjá Saga Capital. Óli Þór er verkfræðingur frá Aalborg Universitet í Danmörku og með B.Sc. í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Hann stundar nám til prófs í verðbréfaviðskiptum. Óli starfaði áður sem sérfræðingur á Verðbréfasviði hjá Landsbanka Íslands og sem verkfræðingur hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen.

Róbert Styrmir Helgason hefur tekið til starfa sem sérfræðingur á Uppgjörssviði. Róbert er með B.S. í viðskiptafræði frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst og er að ljúka mastersnámi í E.U. Business and Law við Viðskiptaháskólann í Árósum. Róbert vann áður í bakvinnslu hjá Glitni.

Nýjast