Segja Bíladaga hafa gengið betur en undanfarin ár

Aðsóknarmet var slegið á einstaka viðburði á Bíladögum. Mynd/BA.is
Aðsóknarmet var slegið á einstaka viðburði á Bíladögum. Mynd/BA.is

Að sögn lögreglunnar á Akureyri var ástandið í bænum á nýliðnum Bíladögum almennt betra en verið hefur síðustu árin. Þetta kom fram á fundi í gær hjá fulltrúa frá lögreglunni, Aflinu, Bílaklúbbi Akureyrar, Akureyrarstofu, Eyjafjarðarsveit og Slökkviliðinu á Akureyri. Frá þessu er greint á vef Akureyrarbæjar.

Alvarlegasta málið sem kom upp er nauðgun sem var tilkynnt til lögreglunnar og harma aðstandendur hátíðarinnar atvikið. Einnig kom fram að fíkniefnamál hafi ekki verið fleiri en gengur og gerist á öðrum tímum. Álíka mörg mál komu til kasta lögreglunnar og síðustu árin en sýnileiki lögreglunnar var meiri en verið hefur á Bíladögum sem veldur því óhjákvæmilega að fleiri skráð tilvik eru færð til bókar.

Starfsmenn Umhverfismiðstöðvar bæjarins segja að afar snyrtilega hafi verið gengið um bæjarlandið og að engar kvartanir hafi borist til þeirra.

Fulltrúar Bílaklúbbsins telja að aðsókn í heildina hafi verið nokkru minni en á síðasta ári en að þó hafi trúlega nýtt aðsóknarmet verið slegið á einstaka viðburði.

Nokkuð bar á ólátum á tjaldsvæðinu við Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit og verður tekið á því máli sérstaklega við undirbúning Bíladaga á næsta ári.

„Þrátt fyrir að lögreglan hafi verið með öflugt eftirlit á þessum vegi er ljóst að það verður að leggja sérstaka áherslu á að fylgjast með hraðakstri á Eyajafjarðarbraut frá Akureyri að Hrafnagili þar sem óvarlega var ekið að þessu sinni sem getur skapað hættu fyrir almenna vegfarendur. Samdóma álit fundarmanna var að með þessum undantekningum hafi tekist vel til með Bíladaga að þessu sinni og minna borið á óánægjuröddum meðal bæjarbúa enda hafi spól og bíladrunur innan bæjarmarkanna verið minni en síðustu árin,“ segir á vef Akureyrarbæjar.

 

Nýjast