Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra segir á vefnum Túristi.is að það séu vonbrigði að fellt hafi verið niður innanlandsflug um Keflavíkurflugvöll, en vill þó ekki útiloka að því verði haldið áfram. Eins og fjallað hefur verið um fréttum og Túristi.is greindi fyrst frá tóku stjórnendur Air Iceland Connect þá ákvörðin að leggja niður flug milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar nú í vor.
Þessari flugleið hefur verið haldið úti yfir hásumarið um árabil en reglulegar ferðir yfir veturinn hófust fyrst í febrúar í fyrra. „Mér finnst ekki tímabært að útiloka að þetta geti gengið. Ég sé í sjálfu sér ekki hvað hið opinbera getur lagt af mörkum í þeim efnum umfram það sem við höfum þegar gert en ég er sannarlega tilbúin til að eiga samtal við hlutaðeigandi um það,” segir Þórdís Kolbrún.
Ráðherrann bendir einnig á að 80 milljónum hafi verið varið í markaðssetningu á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum. „Mögulega á það enn eftir að skila árangri og við sjáum að flug SuperBreak til Akureyrar hefur verið vel nýtt og mikil eftirspurn.“
Viðræður standa yfir við aðra aðila
Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir í viðtali á Túristi.is að það sé hennar trú að það sé næg eftirspurn eftir þessu tengiflugi frá Keflavíkurflugvelli til Akureyrar og viðræður séu hafnar við aðra aðila um að starfrækja þessa flugleið. „Ég get ekki tilnefnt ákveðna aðila, það verður að koma í ljós ef vel gengur að fá menn í verkefnið,” segir Arnheiður.