Alls náðu 17 kýr í Eyjafirði og Suður-Þingeyjarsýslu því marki, að mjólka yfir 10 þúsund kíló á síðastliðnu ári, en árið þar á undan voru þær aðeins 5. Þetta kemur fram í niðurstöðum afurðaskýrslna í naugriparækt fyrir árið 2011. Alls komu til uppgjörs skýrslur frá 96 búum í Eyjafirði og 57 í Suður-Þingeyjarsýslu. Er þar um að ræða sama fjölda og árið áður, en með í uppgjörinu er eitt bú í Eyjafirði sem hætti mjólkurframleiðslu á árinu og annað í S.-Þing. Þá féll út skýrsluhald á einu búi á síðarnefnda svæðinu.
Fjöldi árskúa í Eyjafiði var 4656,7 og 1409,8 í S.-Þing. Er um að ræða nokkra fækkun frá fyrra ári á báðum svæðum. Meðalbústærð er 48,5 árskýr í Eyjafirði, en 24,7 í S.-Þing. Meðalafurðir eftir árskú í Eyjafirði reyndust vera 5410 kg, sem er hækkun um 177 kg og í S.-Þing. 5443 kg og hafði hækkað frá fyrra ári um 120 kg.
Þegar horft er á allt landið er meðalbústærð 38,5 árskýr, flestar í Eyjafirði eða 48,5 kýr en fæstar í S.-Þing. eða 24,7 kýr. Ellefu bú á Búgarðssvæðinu ná meðalafurðum yfir 6.500 kg, þau eru á Syðri-Bægisá, Steinsstöðum, Nesi, Stóru-Tjörnum, Vöglum, Svertinsstöðum, Engihlíð, Hvassafelli, Ingjaldsstöðum, Brakanda og Baldursheimi.