Samþykkt um búfjárhald á Akureyri aftur til framkvæmdaráðs

Sigurður Guðmundsson og haninn Hrólfur í pontu á fundi bæjarstjórnar í dag.
Sigurður Guðmundsson og haninn Hrólfur í pontu á fundi bæjarstjórnar í dag.

Haninn Hrólfur mætti á fund bæjarstjórnar Akureyrar fyrr í dag, þegar fram fór síðari umræða um samþykkt um búfjárhald í bæjarfélaginu. Sigurður Guðmundsson bæjarfulltrúi Bæjarlistans hafði Hrólf með sér þegar hann steig í pontu á fundinum og tóku þeir félagar sig vel út, þótt Hrólfur hafi ekki haft neitt sérstakt til málanna að leggja. Nærvera hans virtist þó hafa góð áhrif á aðra bæjarfulltrúa, sem virtust kunna vel við þetta uppátæki Sigurðar.

Hvort það var Hrólfi að þakka eða kenna, þá komu fram nokkrar breytingartillögur við samþykktina og fór svo að lokum að Oddur Helgi Halldórsson formaður bæjarráðs og formaður framkvæmdaráðs lagði til að samþykktin færi aftur til umfjöllunar í framkvæmdaráði og var það samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum. Hrólfur mun því geta haldið jólin nokkuð afslappaður með sínum hænum og sonum sínum tveim, þeim Oddi Helga og Böðvari og kanínunni Dísu, sem býr í góðu yfirlæti í hæsnakofanum við Norðurgötu. Reyndar kom í ljós á fundinum að samkvæmt samþykkt um búfjárhald, er bannað að vera með kanínur á Akureyri. Það fannst Sigurvini Jónssyni, eiganda Hrólfs og Dísu, nokkuð sérstakt, þar sem margir væru með kanínur og að hægt væri að kaupa kanínur í gæludýraverslun í bænum.

 

Nýjast