Samningur undirritaður um fram- kvæmd krabbameinsleitar á FSA

Krabbameinsfélags Íslands (KÍ), Heilsugæslustöðin á Akureyri (HAK) og Sjúkrahúsið á Akureyri (FSA) undirrituðu fyrir helgi samning sem felur í sér að framkvæmd legháls- og brjóstakrabbameinsleitar á Eyjafjarðarsvæðinu fari fram á FSA. Samningurinn gildir til ársloka 2013.  

Til leghálskrabbameinsleitar eru allar konur boðaðar á tveggja ára fresti, 20 til 69 ára, með þeirri undantekningu að konur á aldrinum 40-69 ára með eðlilega fyrri leitarsögu og tiltekinn fjölda eðlilegra frumustroka eru boðaðar á fjögurra ára fresti. Til brjóstakrabbameinsleitar með röntgenmyndatöku eru allar konur 40 til 69 ára boðaðar á tveggja ára fresti. Konur 70 ára og eldri eru ekki boðaðar, en þeim er frjáls þátttaka að eigin ósk. Í mörg ár hefur leit að leghálskrabbameini hjá konum farið fram á Heilsugæslustöðinni á Akureyri einn dag í viku. Með til tilkomu nýrrar stafrænna brjóstaröntgenmyndavélar, sem Krabbameinsfélag Íslands hefur komið fyrir á myndgreiningardeild FSA, sköpuðust aðstæður til endurskipulagningar á krabbameinsleit kvenna.

Til hagræðis fyrir konur var ákveðið að hafa leghálskrabbameinsleitina og brjóstakrabbameinsleitina á sama stað á FSA. Þar hefur verið innréttað húsnæði og Lionsklúbburinn Ösp gaf nýjan kvenskoðunarstól. Konur hafa nú þegar lýst yfir ánægju sinni yfir því að hafa báðar leitirnar á sama stað. Þær breytingar verða að leitin verður nú 2 daga í senn á 3-4 vikna fresti og ekki yfir sumartímann. Þó leghálskrabbameinsleitin verði nú á FSA mun hún verða undir umsjón Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri og munu tímapantanir verða þar áfram í síma 460 4600.

"Samningurinn gerir okkur kleift að opna hér eins konar forvarnamóttöku fyrir konur sem búsettar eru á þjónustusvæði FSA. Nú fer fram á einum stað leit að leghálskrabbameini og brjóstakrabbameini og á sama stað er ennfremur boðið upp á beinþéttnimælingar. Í þessu felst mikið hagræði fyrir skjólstæðinga okkar, sem nú þurfa einungis að mæta í eitt skipti á einn stað í stað þess að mæta tvisvar eða þrisvar sinnum á jafnmarga staði eins og áður var," segir Þorvaldur Ingvarsson, framkvæmdastjóri lækninga á FSA.

Varðar um 6.000 konur

Samningurinn varðar skipulega leit að leghálskrabbameini hjá konum á aldrinum 20-69 ára og eldri og leit að brjóstakrabbameini með röntgenmyndatöku hjá konum 40-69 ára og eldri, sem búsettar eru á Eyjafjarðarsvæðinu. Þann 31. desember 2007 var fjöldi kvenna á þessu svæði á aldrinum 20-39 ára 2.636 og á aldrinum 40-69 ára 3.307, alls tæplega 6.000 konur.

Kerfisbundin leit að krabbameini í leghálsi og brjóstum er umfangsmesta verkefni Krabbameinsfélags Íslands. Leitarstöð félagsins skipuleggur leitina og stjórnar henni samkvæmt samningi við heilbrigðisyfirvöld. Stjórnstöð leitarstarfsins er í húsi félagsins við Skógarhlíð 8 í Reykjavík, og eru flestar konur á höfuðborgarsvæðinu skoðaðar þar. Utan höfuðborgarsvæðis er skoðað á um fjörutíu heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum, í samstarfi við stjórnendur þeirra, segir í fréttatilkynningu frá Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Nýjast