Einnig að auka þekkingu á veiðum og nýtingu sjávarfangs og auka gæði afurða, markaðssetningu og stuðla að bættri ímynd greinarinnar. Samninginn undirrituðu þeir Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra og Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri. Athöfnin fór fram í anddyri Borga, rannsóknahúss Háskólans. Kennsla í sjávarútvegsfræðum hófst við Háskólann á Akureyri árið 1990 og hefur verið kennd samfellt síðan. Rannsóknarhúsið Borgir hýsir jafnframt samstarfsstofnanir á sviði sjávarútvegs svo sem Matís og Hafrannsóknastofnun. Að lokinni undirritun kynnti Hreiðar Þór Valtýsson, lektor við sjávarútvegsfræði í HA tilgang og verksvið Sjávarútvegsmiðstöðvarinnar en hann mun veita henni forystu. Hreiðar ræddi einnig stöðu sjávarútvegs hér á landi og hin fjölmörgu tækifæri sem í greininni leynast. Framamenn í sjávarútvegi og frambjóðendur stjórnmálaflokka tóku einnig til máls.
Helstu verkefni Sjávarútvegsmiðstöðvarinnar eru að afla og miðla upplýsingum um sjávarútveg milli fyrirtækja og samstarfsaðila, stuðla að samvinnu við innlendar og erlendar vísindastofnanir á sviði sjávarútvegs, auka tengsl atvinnulífs og skóla með nemendaverkefnum í samvinnu við fyrirtæki og annast rannsóknir á sjávarútvegi í eigin nafni. Einnig lúta verkefni miðstöðvarinnar að því að safna upplýsingum um sjávarútveg í gagnagrunn sem nýtist í rannsóknum, standa fyrir ráðstefnum, umræðufundum, námskeiðum, fyrirlestrum og annarri fræðslustarfsemi, stuðla að nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi í sjávarútvegi og standa fyrir útgáfu rita og söfnun bóka, tímarita og annars efnis um sjávarútveg.